Í heilbrigðisráðuneytinu eru tilbúin drög að athugasemdum við viljayfirlýsingu um að Ísland kaupi rússneska bóluefnið Spútnik V sem dugi fyrir meðferð á 100 þúsund einstaklingum.
Samkvæmt drögunum yrðu kaupin háð því að seljandi bóluefnisins geti afhent að minnsta kosti 75 þúsund skammta í síðasta lagi 2. júní 2021. Þá yrði kaupin háð því að gefið hafið verið út markaðsleyfi fyrir Spútnik V í Evrópu í síðasta lagi þann 2. júní.
Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið, en Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti málið á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Í svarinu er vakin athygli á því að undirritun viljayfirlýsingu feli ekki í sér að Ísland skuldbindi sig til að ganga til samninga um kaup á Spútnik V.
Ráðuneytið segir að það hafi, ásamt fulltrúa utanríkisráðuneytisins, fundað með fulltrúum Gamaleya National Research Center for Epidemiology and Microbiology í Rússlandi, upphaflegum framleiðanda og þróunaraðila Spútnik V bóluefnisins þar sem rædd voru kaup á bóluefninu. „Í framhaldi sendi Russian Direct Investment Fund (RDIF) sem fjármagnar stærri framleiðslu bóluefnisins ásamt því að sjá um skráningu, lyfjagát og markaðssetningu lyfsins, ráðuneytinu viljayfirlýsingu um að hefja samningaviðræður um kaup á bóluefninu. Þar kemur fram að Íslandi standi til boða að kaupa skammta fyrir 200 þúsund einstaklinga.“
Ef að minnsta kosti 75.000 skammtar af bóluefni Spútnik kæmu til landsins í seinasta lagi 2. júní væri það líklegt til þess að hafa töluverð áhrif á framgang bólusetninga hér á landi, enda er það nægilegt magn bóluefnis til þess að fullbólusetja 37.500 manns.
Samkvæmt staðfestum áætlunum um afhendingu bóluefna út júnímánuð er í dag búist við um og yfir 20 þúsund skömmtum af bóluefnum í hverri viku til landsins út júnímánuð. Langflestir þessara skammta koma frá Pfizer, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.