Íslandsbanki hefur sagt upp samningum sínum við alþjóðlega greiðslukortafyrirtækið VISA, og íslenska greiðslumiðlunarfyrirtækið Valitor. Íslandsbanki hefur undirritað samning við Borgun, sem mun framvegis sjá um allar kortafærslur viðskiptavina bankans. Þá hyggst bankinn framvegis einvörðungu gefa út greiðslukort undir merkjum Mastercard, og hefur gert viðskiptavinum sínum viðvart um breytinguna, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Bankinn hyggst með þessu einfalda verklag og auka skilvirkni varðandi greiðslukortaviðskipti, en fram til þessa hefur Íslandsbanki átt í viðskiptum við bæði Borgun og Valitor. Valið á milli þess að beina viðskiptum sínum alfarið ýmist til VISA eða Mastercard réðst eftir útboð bankans, þar sem greiðslukortarisarnir kepptust um hituna. Íslandsbanki á ráðandi hlut í Borgun, en valið á milli Borgunar og Valitor réðst eftir úttekt endurskoðunarfyrirtækisins KPMG.
Mikið högg fyrir Valitor
Samkvæmt heimildum Kjarnans má áætla að Valitor verði af tekjum sem nema hundruðum milljóna króna á ári, eftir uppsögn Íslandsbanka á samningnum við greiðslumiðlunarfyrirtækið. Samningar bankans við VISA og Valitor renna úr gildi á næstu mánuðum, en þeim verður framlengt mánuð í senn þar til yfirfærslunni lýkur. Valitor vildi ekki veita neinar upplýsingar um málið þegar eftir því var leitað.
Viðskiptavinir Íslandsbanka, sem hafa notast við VISA greiðslukort fá send ný Mastercard debet- og kreditkort í pósti, sem er nýbreytni hér á landi, sem þeir geta svo virkjað í heimabanka Íslandsbanka innan tveggja mánaða. Með nýjum Mastercard greiðslukortum Íslandsbanka munu viðskiptavinir bankans geta framkvæmt snertilausar greiðslur, með því að bera greiðslukort sín upp að posum. Íslandsbanki áætlar að það muni taka tvö til þrjú ár að skipta út VISA greiðslukortunum fyrir Mastercard, en ráðist verður í yfirfærsluna í áföngum.
Samkvæmt heimildum Kjarnans eru frekari breytingar á íslenska kortamarkaðnum í farvatninu, en þar eru gríðarlegar fjárhæðir undir.