Alls versluðu rúmlega 57% notenda Meniga í Fríhöfninni á síðasta ári. Að meðaltali vörðu þeir tæpum 40.000 krónum í Fríhöfninni á árinu 2013. Það kemur ekki á óvart að hæsti tekjuhópurinn verslaði bæði oftar og fyrir hærri upphæðir en sá tekjulægsti, en tekjuhæsti hópurinn verslaði að meðaltali 4,8 sinnum í Fríhöfninni en sá tekjulægsti 1,4 sinnum að meðaltali. Árið 2013 varði tekjuhæsti hópurinn að meðaltali rúmlega 57.000 krónur í Fríhöfninni í samanburði við tæpar 25.000 krónur hjá þeim tekjulægsta.
Mikil fatakaup erlendis
Þá er einnig áhugavert að skoða hrifningu landans á verslun í H&M. Tæp 37% notenda Meniga verslaði í H&M. Þó versla tekjuhærri hópar mun oftar en þeir tekjulægri. Þannig versluðu 26% tekjulægsta hópsins í H&M í samanburði við 47% þeirra tekjuhæstu. Lítill sem enginn munur var á meðalupphæð sem keypt var fyrir í hvert sinn eftir tekjuhópum, en hún var rúmar 15.000 krónur. Sama má segja um heildarupphæð sem þeir vörðu í H&M á árinu 2013, en hún nam að meðaltali 32.000 krónum.
H&M er langstærsta fataverslunin á íslandi
Sé hlutdeild í fataverslun Meninga notenda skoðuð sést þeir verja 22% fataverslunar sinnar í verslunum H&M, en sú innlend verslun sem kemur næst er með 9% hlutdeild. Aðrar verslanir eru með 5% hlutdeild eða minna. H&M er því langstærsta fataverslun á Íslandi sem er einkar áhugaverð staðreynd þar sem H&M starfrækir enga verslun á Íslandi.
Eplin í innkaupakörfu landans
Árið 2013 versluðu 3,7% Meniganotenda í verslunum Apple erlendis. Einungis tæplega 2% tekjulægsta hópsins verslaði við Apple í útlöndum í samanburði við rúmlega 7% þess tekjuhæsta.
Að meðaltali keyptu þeir vörur þar fyrir rúmar 77.000 krónum; tekjulægsti hópurinn varði rúmum 58.000 en sá tekjuhæsti tæpum 90.000. Þess utan vörðu 16% Meniganotenda að meðaltali tæpum 9.000 krónum í iTunes.
Það er ljóst að stór hluti Meniganotenda verslar í H&M en ver hæstu upphæðunum í verslunum Apple. Þá er áhugavert að velta fyrir sér ástæðum þess að fólk kýs að versla föt og raftæki erlendis. Nærtækast er að ætla að Meniganotendur beini verslun sinni þangað sem hún er hagstæðust. Sé það rétt, er áhugavert að draga fram hvernig tekjuhóparnir hafa ólík tækifæri að nýta sér þau lægri verð sem bjóðast í verslunum erlendis. Þá er einnig ljóst að íslenska ríkið verður af tekjum vegna verslunar Meniganotenda erlendis.
Ofangreindar upplýsingar eru fengnar úr Menigahagkerfinu og unnar í samstarfi Stofnunar um fjármálalæsi og Meniga. Meniga hjálpar fólki að halda utan um fjármál heimilisins og er heildarfjöldi notenda um 40.000. Aldrei er unnið með persónugreinanleg gögn í Meniga hagkerfinu. Nánari upplýsingar má finna á www.meniga.is og www.fe.is. Höfundur greinarinnar er forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi.