Í fyrra námu heildarútgjöld íslenskra ferðamanna á ferðalögum innanlands 122 milljörðum króna og drógust þau saman um 14 prósent frá árinu 2019, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Þrátt fyrir samdrátt hefur hlutfall útgjalda Íslendinga af heildarútgjöldum ferðamanna ekki mælst svo hátt síðan Hagstofan hóf að taka saman þessa tölfræði. Útgjöld íslenskra ferðamanna námu 56 prósentum af heildarútgjöldum ferðamanna árið 2020 en þau námu 27 prósentum af heildarútgjöldum ferðamanna árið áður.
Heildarútgjöld erlendra ferðamanna náum aftur á móti 98 milljörðum króna árið 2020 og drógust þau saman um 75 prósent milli ára. Stærstur hluti útgjalda erlendra ferðamanna var vegna gistiþjónustu eða um fimmtungur. Útgjöld erlendra ferðamanna í þeim flokki drógust engu að síður saman um 76 prósent milli ára.
Alls námu útgjöld erlendra ferðamanna 98 milljörðum króna árið 2020 og er það samdráttur um 75 prósent milli ára. Stærstur hluti útgjalda erlendra ferðamanna var vegna gistiþjónustu eða um fimmtungur. Útgjöld erlendra ferðamanna vegna gistiþjónustu drógust engu að síður saman um 76 prósent milli ára.
Starfsfólki í ferðaþjónustu fækkaði um 31 prósent
Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu rúmlega helmingaðist á milli áranna 2019 og 2020. Hlutfallið fór úr því að vera átta prósent árið 2019 niður í 3,9 prósent árið 2020. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands en í þeim er bæði tekið tillit til útgjalda innlendra sem og erlendra ferðamanna á Íslandi. Útgjöld ferðamanna, bæði íslenskra og erlendra, námu 220 milljörðum króna árið 2020 samanborið við um 520 milljarða árið áður og drógust því saman um 58 prósent milli ára.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar taldist ferðaþjónustan þriðja stærsta atvinnugreinin á Íslandi, sem hlutfall landsframleiðslu, á eftir heilbrigðis- og félagsþjónustu og heild- og smásöluverslun. Á árinu 2020 hrapar ferðaþjónustan hins vegar niður listann. Tölurnar eru þó birtar með ákveðnum fyrirvara á vef Hagstofunnar: „Þegar hlutdeild ferðaþjónustu í landsframleiðslu er borin saman við aðrar atvinnugreinar þarf að hafa í huga að ferðaþjónusta er ekki skilgreind sem atvinnugrein í hefðbundinni atvinnugreinaflokkun heldur er hún samsett grein þar sem lagt er saman tiltekið hlutfall af starfsemi annarra atvinnugreina.“
Þá fækkaði starfandi einstaklingum í ferðaþjónstu um 31 prósent árið 2020 samanborið við árið 2019, úr 30.800 í 21.000. Enn meiri samdráttur varð í vinnustundum í ferðaþjónustu. Þær drógust saman um 39 prósent milli ára, úr 41,2 milljónum vinnustunda árið 2019 niður í 25,3 milljónir árið 2020.
Spár bankanna gera ráð fyrir fleiri erlendum ferðamönnum
Samkvæmt tilkynningu Hagstofunnar fækkaði komum erlendra ferðamanna til landsins um 81 prósent á tímabilinu sem um ræðir en alls komu tæplega 490 þúsund ferðamenn til landsins árið 2020.
Vonir standa til að með auknum bólusetningum víða um heim muni fleiri ferðamenn leggja leið sína til landsins í ár en í fyrra. Í nýjasta hefti Peningamála sem Seðlabanki Íslands gefur út er því spáð að á árinu muni hingað koma 660 þúsund ferðamenn. Sú spá er að vísu ögn svartsýnni en fyrri spá bankans frá í febrúar sem hljóðaði upp á 700 þúsund ferðamenn. Ástæðan fyrir lækkaðri spá er sú að faraldurinn reyndist þrálátari í helstu viðskiptalöndum Íslands heldur en útlit var fyrir þegar fyrri spá var gerð.
Landsbankinn sendi einni frá sér uppfærða hagspá í maí. Í henni er gert ráð fyrir að væntur fjöldi ferðamanna á árinu 2021 verði 800 þúsund, það er nokkur hækkun frá fyrri spá bankans sem gerði ráð fyrir 650 þúsund ferðamönnum.
Spá Íslandsbanka er staðsett á milli hinna spánna tveggja. Í þjóðhagsspá bankans frá því í maí er gert ráð fyrir að 700 þúsund erlendir ferðamenn muni heimsækja Ísland á árinu 2021.