Fyrir rúmum áratug, nánar tiltekið 2009, voru ekki margir sem notuðu snjalltæki tengt við farsímanet sem helstu leið sína til að nálgast afþreyingu og fréttir. Það ár notuðu íslenskir farsímanotendur alls 243 þúsund gígabæti af gagnamagni á farsímanetum fjarskiptafyrirtækjanna.
Á þessum tíma var snjallsímavæðingin enn stutt á veg komin – fyrsta iPhone-inn var kynntur til leiks sumarið 2007 – og enn tvö ár í að spjaldtölvur voru útnefndar sem jólagjöf ársins af Rannsóknarsetri verslunarinnar.
Síðan þá hefur gagnamagnsnotkunin hins vegar aukist skarpt. Raunar er það svo að á ellefu árum hefur hún 337faldast.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri tölfræði skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um fjarskiptamarkaðinn sem sýnir stöðuna í lok árs 2020 sem birt var nýverið.
Nova með mesta markaðshlutdeild
Þar segir að íslenskir farsímanotendur hafi notað alls 81,9 milljón gígabæti á farsímaneti fjarskiptafyrirtækjanna í fyrra. Á milli áranna 2019 og 2020 nam aukningin 49,4 prósentum. Sú aukning varð þrátt fyrir að fjöldi erlendra ferðamanna sem heimsótti Ísland hafi fallið úr um tveimur milljónum árið 2019 í undir hálfa milljón í fyrra, vegna kórónuveirufaraldursins.
Helsta breytingin sem orðið hefur á undanförnum árum er að Nova hefur bætti við sig markaðshlutdeild á kostnað hinna tveggja.
Það þarf þó að taka fram að þar er um að ræða þá notkun sem fer fram í gegnum farsímanetið, ekki þá sem nýtt er með tengingu við beini (WiFi), en margir farsímar tengjast slíkum beini heima hjá notanda og/eða á vinnustað hans. Síminn er það fyrirtæki sem er með flesta viðskiptavini þegar kemur að hefðbundnum internettengingum.
5G-væðingin rétt að byrja
Um liðin áramót voru 85 prósent allra virkra símakorta á farsímaneti 4G kort. Um mitt ár 2014 voru 14,8 prósent allra símakorta þannig, en 4G-væðingin hófst af alvöru á Íslandi á því ári. 4G tengingar innan farsímanetsins fela í sér tíu sinnum meiri hraða en 3G tengingar gera. Þær eru auk þess um þrisvar sinnum hraðari en hröðustu ADSL-tengingar.
Fyrsti 5G sendirinn var svo tekinn í gagnið hérlendis árið 2019 og í kjölfarið hófust prófanir á slíkri þjónustum en með 5G fá notendur að meðaltali tíu sinnum meiri hraða en með 4G.
Stefnt var að því að notkun á 5G kortum yrði nokkuð almenn á síðasta ári en af því varð ekki. Í árslok var fjöldi virkra 5G-korta hérlendis einungis 119 talsins.
Búast má við því að breytist í nánustu framtíð þar sem öll stærstu fjarskiptafyrirtækin á Íslandi ætla sér í öfluga uppbyggingu á 5G-þjónustu á næstu árum.