Ríkisstjórn Ísraels býr sig undir að fjöldi innlagna á spítala vegna COVID-19 muni tvöfaldast á hverjum tíu dögum fram til 10. september. Ný spá um þróun mála gefur til kynna að þá verði 4.800 manns á spítölum landsins vegna kórónuveirusmita og um helmingur þeirra verði alvarlega veikur.
Ef svo færi væru það tvöfalt innlagnir vegna alvarlegra veikinda en nokkru sinni fyrr í faraldrinum í Ísrael.
Þetta kemur fram í frétt á vef ísraelska miðilsins Haaretz. Þar segir einnig að heilbrigðisráðuneyti landsins hafi greint frá því í dag að þegar væru 400 manns alvarlega veik inni á spítölum vegna COVID-19, þar af um 150 bólusettir einstaklingar.
Bólusetningar til bóta en staðan samt slæm
Bólusetningar hafa þó samkvæmt tölunum frá Ísrael tvímælalaust sannað gildi sitt, enda eru hlutfallslega mun fleiri óbólusettir en bólusettir inni á spítölum landsins með alvarleg veikindi.
Samkvæmt annarri frétt Haaretz sem birtist í dag sýna tölurnar að þeir sem eru yfir 60 ára aldri og óbólusettir eru meira en fimmfalt líklegri til þess að veikjast alvarlega en fólk í sama aldurshópi sem hefur látið bólusetja sig, miðað við þróunina til þessa.
Ísraelar eru búnir að bólusetja tiltölulega hátt hlutfall fullorðinna með bóluefni Pfizer, en þó öllu minna en Íslendingar. Þar, öfugt við hér, er nokkuð stór hópur landsmanna sem ekki virðist vilja bólusetningu. Nú geisar faraldurinn í Ísrael sem aldrei fyrr og þrátt fyrir að staðan sé vissulega breytt vegna bólusetninga er útlit fyrir að álag á spítalana verði meira en nokkru sinni.
Bæta burðargetu spítala og íhuga frekari takmarkanir
Í ljósi þessarar nýju spár hefur ríkisstjórn landsins lagt til að innviðir heilbrigðiskerfisins til þess að geta tekið á móti fleiri sjúklingum. Til stendur að fjölga læknum, hjúkrunarfræðingum og öðrum starfsmönnum spítalanna allnokkuð til að geta tekist á við álagið. Læknar sem ræða við Haaretz segja að það sé nauðsynlegt að bæta við fólki, en það muni þó ekki leysa vandann að bæta við 100 læknum í ágúst.
„Við þurfum sérfræðinga í gjörgæslulækningum og það tekur mörg ár að þjálfa þá,“ segir Zeev Feldman, formaður samtaka lækna sem starfa hjá hinu opinbera, við Haaretz.
Naftali Bennett forsætisráðherra landsins viðraði í gær að hert yrði á samkomutakmörkunum, þannig að einungis 50 manns mættu koma saman innanhúss og 100 manns utandyra.