Á síðustu ellefu árum hefur hagur 37 af 52 löndum Afríku vænkast að teknu tilliti til lykilþátta á borð við innviðauppbyggingu, vinnumarkað og efnahagslegs stöðugleika. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu Þróunarbanka Afríku, Afríkubandalagsins og Iðnþróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (Unido). Við greiningu sína var stuðst við nítján lykilþætti og niðurstaðan getur gagnast stjórnvöldum til samanburðar, til að læra af reynslu annarra og finna aðgerðir sem gætu hentað og gagnast við frekari uppbyggingu.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Þróunarbankans.
Meðal lykilþátta sem notaðir eru við greiningu stofnananna eru framleiðni, vinnumarkaður, viðskiptaumhverfi og staða fjármálastofnana, grunninnviðir og efnahagslegur stöðugleiki.
Út frá þessum fyrirfram skilgreindu þáttum stendur Suður-Afríka best að vígi og hefur gert allt tímabilið sem var til skoðunar, þ.e. frá 2011. Marokkó hefur síðustu ár verið að sækja í sig veðrið og er annað iðnvæddasta land álfunnar samkvæmt skilgreiningum stofnananna. Þar á eftir fylgja Egyptaland, Túnis, Máritíus og Eswatini, litla konungsríkið í miðju Suður-Afríku sem áður var kallað Svasíland.
Einstakt tækifæri
Abdu Mukhtar, forstjóri Þróunarbanka Afríku, segir að flest Afríkulönd hafi styrkt stöðu sína efnahagslega að ýmsu leyti á tímabilinu 2010-2021. Hins vegar hafa áhrif heimsfaraldursins verið neikvæð á mörg þeirra, m.a. vegna þess að ferðaþjónusta nánast hrundi á einni nóttu, atvinnugrein sem skiptir mörg landanna miklu máli. Hann segir að enn eigi áhrif heimsfaraldursins eftir að koma að fullu fram.
Í öðru lagi þá hefur sigið á ógæfuhliðina í mörgum Afríkulöndum á þessu ári eða allt frá innrás Rússa í Úkraínu. Aðfangakeðjur hafa hökkt og jafnvel slitnað vegna faraldursins og stríðsins sem hefur hægt á framleiðni. „Álfan hefur nú einstakt tækifæri til að verða sjálfbærari og ekki eins háð öðrum með því að samþætta og þróa áfram eigin markaði.“
Á hann þar við nýtilkomið fríverslunarsvæði álfunnar sem ætti hæglega að geta eflt viðskipti og samvinnu á ýmsum sviðum milli Afríkuríkja og þá einnig hag þeirra 1,3 milljarða manna sem þar samtals búa.
Þrátt fyrir þessi jákvæðu teikn sem orðið hafa á síðasta áratug er hlutdeild Afríkuríkja í alþjóðahagkerfinu mjög lítil, innan við 2 prósent, og hefur minnkað undanfarin misseri.
Í mörgum ríkjum Afríku eru stór alþjóðleg fyrirtæki, m.a. í matvælaframleiðslu og námuvinnslu, fyrirferðarmikil. Álfan geymir sannarlega gríðarleg verðmæti í jörðu og jarðvegurinn er víða gjöfull og einkar hentugur til ræktunar á margvíslegum matvörum. Landbúnaður er hins vegar enn víða frumstæður, handaflið notað til hins ítrasta og vélvæðing áratugum á eftir því sem gengur og gerist í flestum öðrum heimshlutum. Frumframleiðsla er stór hluti efnahagslífsins, og hrávörurnar flæða til Vesturlanda þar sem verðmæti þeirra er margfaldað.
Á tíu ára tímabili hækkuðu tíu lönd sig um fimm eða fleiri sæti miðað við hina fyrirfram skilgreindu þætti stofnanna þriggja: Djíbútí, Benín, Mósambík, Senegal, Eþíópía, Gínea, Rúanda, Tansanía, Gana og Úganda.
Það þýðir m.a. að framleiðsla á hvern íbúa þeirra jókst og útflutningur framleiðsluvara sömuleiðis.