Minnisblað sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra í morgun með tillögum að innanlandsaðgerðum um jól og áramót verður rætt á fundi ráðherranefndar síðdegis. Þá verður efni minnisblaðsins rætt á ríkisstjórnarfundi í fyrramálið. Að honum loknum verða breytingar á sóttvarnaráðstöfunum, ef einhverjar verða, kynntar.
Um 200 smit hafa greinst hér á landi síðustu daga. Nýtt afbrigði kórónuveirunnar, ómíkron, hefur einnig verið að sækja í sig veðrið hér á landi. Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, telur að með áframhaldandi þróun megi búast við um sex hundruð smitum daglega. Í viðtali á Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun bar hann stöðuna hér á landi saman við stöðuna í Danmörku og Noregi. Már segir að með þessu áframhaldi gætu sex lagst inn á spítala vegna Covid-19 daglega og segir hann að spítalinn muni ekki ráða við það ofan á það álag sem þar er fyrir.
Frá því að fjórða bylgjan hófst í lok júní hafa 233 lagst inn á spítala. Í dag liggja 11 sjúklingar á Landspítala með Covid-19, tveir þeirra eru á gjörgæslu og annar í öndunarvél. Sjötugur karlmaður lést á spítalanum af völdum Covid-19 um helgina.
Líkt og fyrr segir verður efni minnisblaðs sóttvarnalæknis rætt á fundi ráðherranefndar í dag og á ríkisstjórnarfundi í fyrramálið. Að þeim fundi loknu ætti að skýrast hvaða sóttvarnaaðgerðir verða í gildi yfir jólahátíðina.
Núverandi reglugerð um takmarkanir á samkomum fólks vegna farsóttar tóku gildi 12. nóvember og gilda til 22. desember. Samkvæmt þeim mega 50 manns koma saman í sama rými en heimilt er að hafa allt að 500 manns í rými á viðburðum gegn því að fólk framvísi neikvæðu hraðprófi og að 1 metra nálægðarmörk séu tryggð. Ef það er ekki hægt skal fólk bera grímu fyrir vitum.
Eins metra nálægðarreglan er svo almenn, t.d. á vinnustöðum og í annarri starfsemi, eins og segir í reglunum. Það sama á við um grímuskyldu. Hana skal virða þar sem ekki er unnt að tryggja eins metra bil milli ótengdra einstaklinga.