Á fullveldisdaginn, þann 1. desember næstkomandi, verður haldinn hluthafafundur í Origo, skráðu félagi í íslensku kauphöllinni. Tilgangur fundarins er fyrst og síðast einn, að kjósa um hvort greiða eigi 24 milljarða króna út úr félaginu og til hluthafa og lækka hlutafé í Origo samhliða um næstum 68 prósent.
Sú ákvörðun er afleiðing af því að Origo seldi tæplega 40 prósent eignarhlut sinn í Tempo fyrir 195 milljónir Bandaríkjadali, um 28,5 milljarða króna á gengi dagsins í dag, til félags á vegum bandaríska tæknifjárfestingarsjóðsins Diversis Capital í byrjun október síðastliðinn. Væntur söluhagnaður Origo, að teknu tilliti til bókfærðs virðis og kostnaðar, var áætlaður yfir 22 milljarðar króna.
Til samanburðar má nefna að markaðsvirði Origo í lok þriðja ársfjórðungs, sem lauk í septemberlok, var 27,8 milljarðar króna, eða minna en kaupverðið á hlut félagsins í Tempo. Eftir að tilkynnt var um söluna hefur hlutabréfaverið í Origo hækkað mikið og heildarvirði félagsins nú er rúmlega 35 milljarðar króna. Því nemur útgreiðslan um 69 prósent af markaðsvirði Origu við lokun markaða í gær.
Stærstu hluthafar Origo eru lífeyrissjóður verzlunarmanna, Birta lífeyrissjóður, Stapi lífeyrissjóður og Lífsverk. Saman eiga þessir fjórir sjóðir um 36,7 prósent hlut. Stærsti einkafjárfestirinn í Origo er Frigus II, í eigu Ágústs og Lýðs Guðmundssona, fyrrverandi aðaleigenda Exista og stærstu eigenda Bakkavarar, og Sigurðar Valtýssonar, fyrrverandi forstjóra Exista sem á 4,25 prósent hlut.
Stofnað 2009 og margfaldast í virði á fjórum árum
Tempo var stofnað árið 2009, af starfsfólki TM Software, sem þá var dótturfélag Nýherja, og varð fljótt leiðandi hugbúnaðarfyrirtæki sem þróaði verkefnastýringar- og viðskiptahugbúnað (B2B) fyrir JIRA kerfið frá Atlassian. Um hreint íslenskt hugvitsfyrirtæki er því að ræða.
Vöxturinn á tekjum vegna Tempo var um 50 prósent á ári fyrstu árin. Snemma árs 2015 var Tempo búið að vaxa svo mikið að ákveðið var að aðskilja reksturinn frá TM Software og setja hann inn í sérstakt fyrirtæki. Ári síðar, 2016, var greint frá því að ráðgjafar hefðu verið ráðnir til að undirbúa söluferli. Kjarninn fjallaði ítarlega um vegferð Tempo á þessum árum.
Í tilkynningu sem send var til Kauphallar samhliða því að kaupin á hlut Origo í Tempo voru kunngjörð var haft eftir Hjalta Þórarinssyni, stjórnarformanni Origo að nú væri komið að ánægjulegum tímamótum eftir langa samfylgd. „Stórt skref var tekið í nóvember 2018 þegar Origo seldi meirihluta í félaginu til Diversis Capital í þeim tilgangi að fá meðfjárfesta með alþjóðlega reynslu til að hraða vexti félagsins og auka virði fyrir hluthafa Origo. Sú vegferð sem Origo lagði upp með þá hefur að fullu gengið eftir og rúmlega það, og hefur virði Tempo áttfaldast frá því haustið 2018. Arðsemi Origo af þessum viðskiptum er frábær og hluthafar Origo innleysa hér mikil verðmæti.”
Jón Björnsson, forstjóri Origo, sagði á sama stað að sala á meirihluta í félaginu til Diversis Capital árið 2018 hafi reynst mjög góð ákvörðun hjá stjórnendum Origo. „Árangur Diversis með Tempo hefur farið fram úr væntingum. Tempo stendur nú á ákveðnum krossgötum í sinni vegferð eftir kaup á tveimur nýjum félögum sem meira en tvöfaldar stærð félagsins.
Vegferð Tempo sýnir skýrt hvað frábært starfsfólk, íslenskt hugvit, stuðningur eigenda og stjórnvalda getur búið til mikil verðmæti í hugbúnaðargeiranum. Origo heldur áfram að þróa lausnir sem breyta leiknum líkt og Tempo hefur gert og vonum við að fleiri hugbúnaðarvörur geti átt jafn farsælan feril og Tempo.“