„Það hefur hryggt mig meira en orð fá lýst að Benedikt Jóhannesson, sem ég hef talið góðan félaga og vin, hafi valið þá leið að gera forystu og stofnanir flokksins tortryggilegar í kjölfar þess að hann fékk ekki vilja sínum framgengt við uppstillingar á lista.“
Þetta skrifar Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, í stöðuuppfærslu á Facebook í kvöld. Færslan birtist í kjölfar þess viðtals sem Benedikt fór í við mbl.is í dag þar sem hann gerði það meðal annars tortryggilegt að Jón Steindór hefði verið færður úr öðru sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi og í annað sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður.
Jón Steindór segir þetta virðast hafa verið misskilda greiðasemi við sig. „Væntanlega vill hann benda á að hér sé illa farið með góðan dreng eins og hann af klíkuskap og klækjastjórnmálum forystu Viðreisnar - það er víðs fjarri öllum sannleika og bjarnargreiði við mig. Sama gildir um samsæriskenningar um að körlum hafi verið raðað í efstu sæti landabyggðarkjördæmanna til þess að útiloka að Benedikt fengi ósk sína uppfyllta um forystusæti í einhverju kjördæmanna þrigga á höfuðborgarsvæðinu.“
Eigin hagsmunir blindi sýn
Jón Steindór segir að hann hafi verið tilbúinn að gera þessa breytingu á högum sínum ef það væri framgangi Viðreisnar fyrir bestu og komið því á framfæri við uppstillingarnefnd flokksins þegar málið var rætt við hann. „Ég er þess fullmeðvitaður að það verður erfiðara verkefni en að halda mig í Suðvesturkjördæmi, verkefni sem ég mun takast á við af fullum krafti. Þá er ég ánægður með að fá að vera númer tvö á eftir Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur öflugum þingmanni og hugsjónakonu.“
Viðreisn er stjórnmálaflokkur sem ég tók þátt í að stofna með fjölda fólks og hef starfað þar af lífi og sál allar götur...
Posted by Jón Steindór Valdimarsson on Wednesday, June 23, 2021
Útilokaði ekki að stofna klofningsflokk
Í viðtali við mbl.is fyrr í dag greindi Benedikt frá því að hann hefði sagt sig úr framkvæmdastjórn Viðreisnar. Í samtali við Vísi síðar um daginn sagði Benedikt ótímabært að svara því hvort hann ætli sér að stofna klofningsflokk frá Viðreisn, en búið er að stofna Facebook-hóp undir nafninu C++ frelsi og frjálslynd hugsun!. C er listabókstafur Viðreisnar.
Kjarninn fjallaði ítarlega um þær hörðu deilur sem spruttu upp innan Viðreisnar í fréttaskýringu sem birtist í lok síðasta mánaðar, í kjölfar þess að Benedikt hafði verið hafnað sem frambjóðanda af uppstillinganefnd flokksins.
Eftir þá höfnun fór í gang fór atburðarás til að reyna að sætta ólík sjónarmið og plástra persónuleg sárindi, sem bar ekki árangur.
Benedikt verður ekki á lista Viðreisnar í komandi kosningum og hefur nú auk þess sagt sig úr framkvæmdastjórn flokksins, þar sem hann hefur setið frá upphafi. Sú stjórn annast daglegan rekstur Viðreisnar og fjárreiður með framkvæmdastjóra. Þar sitja nú formaður Viðreisnar, varaformaður og Þórður Magnússon, formaður fjáröflunarnefndar, sem er áheyrnarfulltrúi, og Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi varaformaður Viðreisnar sem tók sæti Benedikts.