Jón Trausti Reynisson mun stíga úr stóli ritstjóra Stundarinnar og verður því eingöngu framkvæmdastjóri Útgáfufélagsins Stundarinnar og blaðamaður á ritstjórn Stundarinnar. Frá stofnun Stundarinnar í janúar 2015 hafa ritstjórar verið tveir en Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir verður framvegis ein aðalritstjóri.
Þetta kemur fram í frétt Stundarinnar þar sem einnig er tilkynnt að fréttamaðurinn og rannsóknarblaðamaðurinn Helgi Seljan hafi gengið til liðs við Stundina. Hann mun gegna hlutverki rannsóknarritstjóra en það hlutverk hefur ekki verið til staðar fram að þessu „en þekkist á rannsóknarfréttamiðlum erlendis undir titlinum investigations editor“. Hann hefur störf þann 15. febrúar næstkomandi.
Kjarninn greindi frá því í dag að Helgi, sem hefur starfað hjá fréttaskýringaþættinum Kveik hjá RÚV á undanförnum árum og þar áður hjá Kastljósi, hefði sagt upp störfum.
Í stöðuuppfærslu sem Helgi birti inni lokuðu vefsvæði starfsmanna RÚV, þar sem hann greindi frá ákvörðuninni, segir hann að hún hafi hvorki tekin í skyndi eða af neinni vonsku. „Ég mat það bara sem svo að nú væri rétti tíminn til að takast á við nýjar áskoranir á nýjum stað. Ég ætla þó ekki að halda því fram að atburðarrás undanfarinna missera hafi ekki haft nein áhrif á að ég yfirleitt fór að velta þessum möguleika fyrir mér. Ég skil þó við RÚV sáttur við allt og alla, vitandi það að öll höfum við lært og munum draga lærdóm af því sem gengið hefur á.“