Fyrirtæki sem sótti um lóð í Þorlákshöfn í desember en fékk ekki úthlutun hefur kært gjaldtöku Ölfuss á umsókn um byggingarlóðir. Auk þess gerir kærandi athugasemdir við meðferð umsóknanna og telur eðlilegt að innviðaráðuneytið taki ferlið til skoðunar.
Yfir þúsund umsóknir bárust um 34 lóðir í Vesturbergi í Þorlákshöfn í desember. Fjöldi umsóknanna vakti athygli. Vesturberg er nýtt hverfi í Þorlákshöfn, vestur af gróinni byggð með tengingu við Selvogsbraut, eina af stofnbrautum bæjarins. Um er að ræða fyrsta áfanga nýrrar byggðar þar sem eru þrettán einbýlishúslóðir, 18 raðhúslóðir og fjórar lóðir fyrir smáfjölbýli. Alls er um 103 íbúðaeiningar að ræða.
Mistök við talningu umsókna
Umsóknarfrestur var til 2. desember og til stóð að úthluta lóðunum 9. desember. Alls bárust 1.118 umsóknir samkvæmt fundargerð bæjarráðs og sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, í samtali við Hafnarfréttir að hann hafi átti von á miklum áhuga en að fjöldinn hafi farið fram úr hans væntingum. Sagði hann jafnframt að sveitarfélagið yrði líklega að finna nýjar leiðir til að draga á milli umsækjenda.
Í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans um lóðaúthlutunina og fjölda umsókna segir Sigmar B. Árnason, byggingarfulltrúi í Ölfusi að mistök urðu mistök í talningu fjölda umsókna og reyndust þær 1.023 talsins. Þar af voru 26 ógildar og því var unnið úr 997 umsóknum. Af þeim voru 158 ógildar, samkvæmt reglum um úhlutun lóða í sveitarfélaginu, þar sem umsækjandi er handhafi lóðar sem framkvæmdir eru ekki hafnar á.
Undantekning gerð á innheimtu byggingagjalds
Sú undantekning var gerð við úthlutun lóðanna að innheimta eitt byggingagjald, alls 7.471 kr., óháð fjölda umsókna hjá einstaklingi eða fyrirtæki. Alls bárust umsóknir frá 78 einstaklingum og 68 frá fyrirtækjum. Flestar umsóknir frá einstaklingi voru 18 talsins og 22 frá fyrirtæki. Ekki var greint frá því sérstaklega að þessi leið yrði farin og hefur umsækjandi sem Kjarninn ræddi við bent á með þessu fyrirkomulagi hafi aukið ójafnræði verið til staðar meðal umsækjenda þar sem boðuð gjaldtaka fyrir hverja umsókn hafi getað haldið aftur af fólki varðandi fjölda umsókna.
Sigmar segir í svari til Kjarnans að ekki hafi þótt verjanlegt að taka umsýslugjöld fyrir hverja umsókn. Því var öllum umsóknum safnað saman frá hverjum einstaklingi og fyrirtækjum og eitt svarbréf sent. Í stað þess að rukka gjald fyrir þær 997 umsóknir sem teknar voru til umfjöllunar var byggingargjald rukkað hjá 78 einstaklingum og 68 fyrirtækjum, eða sem nemur rúmri milljón króna. Ef gjald hefði verið innheimt fyrir hverja umsókn fyrir sig hefði það numið rúmum 7,4 milljónum króna.
Kærandi telur að sveitarfélaginu sé ekki heimilt að innheimta sérstakt gjald fyrir hverja umsókn um byggingarleyfi og fer fram á að gjaldtaka sveitarfélagsins vegna lóðaumsókna verði felld úr gildi og sveitarfélaginu verði gert að endurgreiða gjaldið auk kostnaðar og vaxta. Sigmar segir að sveitarfélagið muni ekki taka afstöðu til kærunnar fyrr en niðurstaða ráðuneytisins liggi fyrir.
Úthlutað milli jóla og nýárs án vitundar umsækjenda – „Hingað til hefur spilastokkur dugað“
Til stóð að tilkynna um lóðaúthlutanir 9. desember. Sigmar segir í svari til Kjarnans að vegna fjölda umsókna hafi farið mikill tími í að vinna úr þeim og því hafi úthlutunin tafist og fór hún fram á fundi afgreiðslunefndar byggingafulltrúa 27. desember.
Í reglum um úthlutun lóða í Sveitarfélaginu Ölfusi kemur fram að „að lokinni úthlutun skal öllum umsækjendum svarað skriflega.“ Í kærunni kemur hins vegar fram að engin tilkynning hafi borist en upplýsingar um úthlutun hafi birst í fundargerð afgreiðslunefndar byggingafulltrúa frá 27. desember. Sigmar fullyrðir að öllum umsækjendum hafi verið sent svarbréf en samkvæmt heimildum Kjarnans kannast fleiri umsækjendur en sá sem sendi kæruna ekki við að hafa fengið svarbréf. Sigmar segir að svarbréfin hafi verið send á tímabilinu 29. desember til 10. janúar.
Í fundargerð afgreiðslunefndar byggingarfulltrúa frá því í lok desember þegar úthlutunin fór fram segir að auk byggingarfulltrúa hafi starfsmaður á skrifstofu sveitarfélagsins verið viðstaddur. Ekki er tilgreint hvernig var staðið að útdrættinum en í fundargerð bæjarráðs frá 8. desember var samþykkt með bókun að umsóknunum yrði raðað upp og gefið fast númer í töflureikninum Excel. „Lóðunum verði síðan úthlutað skv. slembitölu falli (random number generator - Google leit),“ segir í bókuninni sem var samþykkt samhljóða.
Sigmar segir í svari sínu til Kjarnans að hingað til hafi spilastokkur dugað við úthlutanir þar sem ein sort er notuð og umsækjendur boðaðir á staðinn og dregið um lóðir. Það hafi hins vegar ekki verið möguleiki nú og því hafi verið dregið af handahófi úr Excel-skjali í þetta sinn. Fulltrúi sýslumanns var ekki verið viðstaddur úthlutunina þar sem ekkert í lóðaúthlutunarreglum sveitarfélagsins geri ráð fyrir því. „Svo hefur aldrei verið,“ segir Sigmar.
Meðferð umsóknanna „efni í sérstaka rannsókn“
Í kærunni segir einnig að meðferð umsókna við lóðaúthlutunina sé efni í sérstaka rannsókn og eðlilegt væri að ráðuneytið tæki málið til skoðunar. Þar er fullyrt að nokkrir aðilar tengdir Sjálfstæðisflokknum í Ölfusi hafi fengið lóðir. Auk þess er það gagnrýnt að „fyrirferðarmikill verktaki í Þorlákshöfn fær bæði úthlutað raðhúsalóð fyrir fyrirtæki sitt og einbýlishúsalóð persónulega.“
Úthlutunin er sögð óhefðbundin og að hlutleysis hafi ekki verið gætt við framkvæmdina. „Það er allavega alveg ljóst að framkvæmdin á þessari lóðaúthlutun er langt frá því að vera yfir vafa hafin,“ segir í kærunni.