Jón Þór Ólafsson fyrrverandi þingmaður Pírata hefur kært Inga Tryggvason, oddvita yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, til lögreglu fyrir það sem hann kallar „mögulegt kosningasvindl“. Frá þessu greinir Jón Þór í grein á Vísi.
Í grein sinni segir Jón Þór að gögn undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa og opinberar upplýsingar sem lögreglan sendi nefndinni sýni að oddvitinn hafi með lögbroti skapað sér „tækifæri til að svindla“ í alþingiskosningunum.
Hann hafi svo hraðað endurtalningu atkvæða þannig að lögbundið eftirlit hafi verið ómögulegt og farið rangt með í gerðabók, í fjölmiðlum, frammi fyrir þingnefnd og lögreglu um „málsatvik sem benda á mögulega sekt hans.“
Jón Þór fer fram á að lögregla rannsaki sérstaklega hvort gögn málsins sýni að „nægar líkur séu á því að oddviti YNV hafi brotið 128 gr. laga um kosningar til Alþingis með því að hafa vísvitandi rangfært atkvæðagreiðslu.“
„Séu fyrir hendi næg sönnunargögn sé rétt samkvæmt lögum að gefa út ákæru þess efnis, en slíkt brot varðar fangelsi allt að fjórum árum. Kæran beinir því jafnframt til lögreglu að rannsaka önnur möguleg lögbrot við framkvæmd kosninganna er varða sektum,“ segir í grein Jóns Þórs, sem fer fram á það að málið verði tekið til rannsóknar lögreglu án tafar.
Kæru Jóns Þórs til lögreglu, sem dagsett er 18. nóvember, má nálgast hér.