Sænski herinn hefur hætt leit sinni í skerjagarðinum utan við Stokkhólm að því sem talið var vera erlendur kafbátur. Leitin stóð í viku án nokkurra skýringa á því hvað sjónvarvottar sáu. Hundruð tilkynninga bárust yfirvöldum frá fólki sem sagðist hafa séð furðuhluti stinga upp kollinum í hafinu milli eyjanna.
„... hvers vegna hefur verið skorið svo harkalega niður í hernaðarmálum ef sænsk landhelgi hefur ítrekað verið brotin?“
Anders Grenstad, aðmíráll í sænska sjóhernum, sagði á blaðamannafundi í morgun að herinn hafi verið að leita að litlu sjófari undanfarna daga, ekki að stórum hefðbundnum kafbáti. Talsmaður hersins sagði upplýsingagreinendur hersins hafa komist að niðurstöðu um að sjófarið sé nú horfið úr sænskri lögsögu. Atvikið væri aftur á móti „óásættanlegt“.
Orustuskip, tundurspillar, þyrlur og meira en 200 manns leituðu á nokkuð stóru svæði í um 30 til 60 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni alla vikuna. Herinn hefur ekki viljað vísa ábyrgð á nokkurt annað ríki, þó Rússar hafi verið taldir líklegastir. „Ég hef aldrei bent á einstaka ríki,“ sagði Grenstad á blaðamannafundinum.
Áralöng rannsókn
Jafnvel þó sjóherinn hafi leitað af miklum krafti undanfarna viku vakti það athygli um síðastliðna helgi þegar Genstad sagði að herinn hafi verið að kortleggja „erlendar aðgerðir neðansjávar“ í lögsögu Svía undanfarin ár. Hernaðarsérfræðingar hafa velt vöngum yfir þessum yfirlýsingum.
„Ef þetta er tilfellið, hvers vegna hafa þessar upplýsingar stoppað hjá stjórnmálamönnum? Hvers vegna hafa þeir ekki verið upplýstir? Og enn fremur; hvers vegna hefur verið skorið svo harkalega niður í hernaðarmálum ef sænsk landhelgi hefur ítrekað verið brotin?“ spyr Johanne Hildebrandt.