Hækka þarf húsaleigubætur umtalsvert og veita alvöru viðnám gegn „taumlausum hækkunum“ leiguverðs að mati Eflingar. Bent er á það í nýjum Kjarafréttum Eflingar að árið 2021 greiddu leigjendur að meðaltali 45 prósent ráðstöfunartekna sinna í leigu en húsnæðiskostnaður telst íþyngjandi fari hann yfir 40 prósent af ráðstöfunartekjum. Þá býr 27 prósent fólks á leigumarkaði við íþyngjandi húsnæðiskostnað.
Hlutfall leigjenda sem býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað hefur lækkað lítillega á síðustu árum, hlutfallið var 28,4 prósent árið 2019 og 27,6 prósent árið 2020. Nú er hins vegar viðbúið að hlutfallið fari aftur hækkandi. „Þó dregið hafi úr hækkun leigu á meðan Kóvid faraldurinn gekk yfir þá er hækkun leigu nú þegar hafin á ný og fyrirséð að hún verður kröftug þegar aukinnar eftirspurnar eftir leiguhúsnæði fer að gæta frá innfluttu vinnuafli og auknum fjölda ferðamanna,“ segir í Kjarafréttum.
Þar kemur einnig fram að rúmlega 20 prósent heimila séu á leigumarkaði, þar af að mestu leyti lágtekjufólk. „Leigumarkaðurinn hefur því lengi verið með talsvert óöryggi fyrir leigjendur og miklar hækkanir á leigu. Á síðustu 10 árum hefur leiga á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 102%, langt umfram það sem sést hefur í Evrópu. Ekki hefur verið vilji hjá stjórnvöldum til að setja hömlur á hækkun leiguverðs, þó því hafi verið lofað við gerð Lífskjarasamningsins 2019.“
Of margir búi við óhóflega leigubyrði
Hlutfall leigugreiðslna af ráðstöfunartekjum hefur hækkað úr 40 prósentum árið 2019 upp í áðurnefnd 45 prósent árið 2021. Þar að auki greiðir talsverður fjöldi leigjenda óhóflega stóran hluta ráðstöfunartekna sinna í leigu, að því er fram kemur í fréttabréfi Eflingar. Mest er leigubyrðin hjá þeim sem leigja hjá einkareknum leigufélögum en samkvæmt leigukönnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) frá því í nóvember í fyrra greiddi hátt í helmingur leigjenda sem leigja af slíkum leigufélögum meira en 50 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Þar af greiddi 31 prósent þeirra á bilinu 50-69 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu en 13 prósent greiddu 70 prósent eða meira af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. 32 prósent leigjenda á stúdentagörðum greiða meira en 50 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Hjá leigendum sem leiga íbúður af sveitarfélögum greiða 29 prósent meira en helming ráðstöfunartekna sinna í leigu.
„Almennt er allt of stór hluti leigjenda með óhóflega leigubyrði, einnig þeir sem eru í félagslegu húsnæði sveitarfélaga. Talað hefur verið um að æskilegt sé að leiga fari ekki yfir 25% af ráðstöfunartekjum, en þegar meðaltalið fyrir leigjendahópinn allan er 45% og umtalsverðir hópar fara upp í 70% eða jafnvel meira þá er ófremdarástand,“ segir í Kjarafréttum Eflingar.
Í fréttabréfinu segir að húsaleigubætur hafi ekki fylgt þróun leiguverðs, að þær séu of lítill hluti leigukostnaðar og að sá stuðningur sem af þeim hlýst sé ófullnægjandi. „Ríkisstjórnin er nú að hækka húsaleigubætur um 10% vegna almennra verðhækkana. Það færir flestum leigjendum á bilinu 2.000 til 3.200 krónur á mánuði. Það telur ekki upp í hinar miklu hækkanir sem orðið hafa á framfærslukostnaði undanfarið og enn síður upp í gríðarlegar hækkanir á leiguverði á síðustu árum.“