Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík segir ástandið í borgarstjórn á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka mjög neikvætt og hafi einkennst af átakastjórnmálum. Þessu vill Framsóknarflokkurinn breyta og auka traust almennings til borgarstjórnar.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýju kosningahlaðvarpi Kjarnans, Með orðum oddvitanna, þar sem Eyrún Magnúsdóttir ræðir við alla oddvita þeirra ellefu framboða sem bjóða sig fram í borgarstjórnarkosningunum sem fram fara þann 14. maí næstkomandi.
Eðlilegt skref að fara úr fjölmiðli í almannaþjónustu í stjórnmál
Framsóknarflokkurinn fékk einungis 3,2 prósent atkvæða í síðustu borgarstjórnarkosningum og náði ekki inn manni í Reykjavík. Einar hyggst breyta því og miðað við kannanir mun það ganga eftir,. Samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar fær flokkurinn 12,3 prósent fylgi og allt stefnir í að það skili flokknum þeim þremur borgarfulltrúum sem Sjálfstæðisflokkurinn tapar.
Einar hefur ekki starfað innan Framsóknarflokksins áður en segir að þegar óskað var eftir kröftum hans í vetur hafi hann ekki getað skorast undan. Þá telur hann að bakgrunnur hans í fjölmiðlum, þar sem hann hefur mikið fjallað um stjórnmál, meðal annars borgarmál, hafi haft áhrif á ákvörðun hans að leiða lista Framsóknar í borginni og að það sé rökrétt að fara frá Ríkisútvarpinu, fjölmiðli í almannaþjónustu, í stjórnmál.
„Að fara í stjórnmál fyrir mér er að fara í almannaþjónustu. Maður er þjónn borgara og kjósenda og mig langar bara að láta gott af mér leiða. Ég fann að mig langaði að breyta og hafa áhrif, og það gerir maður með því að fara í stjórnmál,“ segir Einar.
Ástandið í borgarstjórn neikvætt
Einar segir ákveðna pólariseringu hafa átt sér stað í stjórnmálum, það hafi til að mynda sýnt sig í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Brexit og í forsetatíð Donalds Trump í Bandaríkjunum. Hann segir ákveðin merki um pólariseringu í íslenskum stjórnmálum.
„Ástandið í borgarstjórn undanfarin ár hefur verið mjög neikvætt. Það hafa verið þessi átakastjórnmál þar sem menn gera ágreining um minnstu mál. Og aðallega stóru málin líka. Það hefur valdið því að traustið á borgarstjórn [...] er minnst, 21 prósent. Það eru fleiri sem treysta bankakerfinu heldur en borgarstjórn og það er ótrúlega undarleg staðreynd,“ segir Einar, og vísar þannig í niðurstöður könnunar Gallup um traust til stofnana frá því í febrúar.
Einar telur stjórnmálamennina bera ábyrgð. „Nú hafa sömu flokkarnir verið þarna við völd mjög lengi, aðallega Samfylkingin, og einhvern veginn hefur það atvikast þannig að það eru bara allir mjög þreyttir á hver öðrum, menn eru búnir að grafa sig svo djúpt ofan í skotgrafirnar að þeir heyra ekki hvað hinn er að segja. Ég held að það sé skýrt ákall eftir ferskum augum þarna inn sem vilja ekki taka þátt í þessum leðjuslag. Það er gott fólk í öllum þessum flokkum en ég held að það þurfi bara aðeins að koma með nýjan anda þarna inn og fara að vinna meira saman.“
Samvinnuhugsjón sem andsvar við pólariseringu
Einar segir að Framsóknarflokkurinn vilji knýja fram ákveðnar breytingar í borginni. „Og mér finnst mjög mikilvægt að menn taki það alvarlega að vinna þvert á flokka og eiga gott samtal, minnihluti kemur alltaf inn í samtalið, þannig að meirihlutinn þarf að sýna því skilning á því sem minnihlutinn er að segja. Ég hef trú á því að samvinnan og samvinnuhugsjónin, þetta gamla, kannski hallærislega hugtak sem sumum finnst, sé andsvarið við pólariseringu, Menn geta kallað þetta eitthvað annað, en þessi hugmyndafræði, að líta á það sem pólitískt hugrekki að vinna með öðrum frekar en pólitísk hugrekki að slá í andstæðinginn, að það sé eitthvað sem borgarbúar vilja og það sé besta leiðin til að ná árangri.“
Einar telur að Framsóknarflokkurinn sé eini flokkurinn sem geti í raun og veru fellt sitjandi meirihluta. „Þeir sem vilja breytingar í borginni þeir ættu að kjósa Framsókn vegna þess að við erum í raunverulegu færi til að hafa áhrif á þennan meirihluta og fella hann. Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki fella þennan meirihluta, það er Framsóknarflokkurinn sem gerir það.“
En getur Framsókn unnið með hverjum sem er?
„Já í grunninn getum við unnið með öllum, held ég, ef fólk vill vinna með okkur. Við erum lausnarmiðuð, en við náttúrulega höfnum öllum öfgum. Við viljum leysa mál, við viljum ekki búa til vandamál.“
Í þættinum ræðir hann einnig um skipulags- og samgöngumál þar sem hann segir vera á móti „með og á móti“-spurningum líkt og borgarlínu og þéttingu byggðar.
Einar vill bæði þétta og dreifa „að því leyti að það þarf að ryðja nýtt land og við höfum land sem er búið að byggja á sem tengist þessum samgöngusáttmála.“
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan: