Tónar og Trix er hópur eldri borgara í Þorlákshöfn sem hittist vikulega yfir vetrartímann til þess að syngja saman og stundum spila á hljóðfæri, semja eða vinna með tónlist á annan skapandi hátt. Þátttakendur í þessum hóp eru 20 og hafa mjög misjafnan bakgrunn í tónlist, sumir hafa sungið eða spilað á hljóðfæri áður á meðan aðrir eru að stíga sín fyrstu skref í tónlist. Við settumst niður með Ásu Berglindi Hjálmarsdóttur og spurðum hana út í starfið.
Eldri borgarar í Ölfusi
Hvað eru þið búin að vinna lengi saman í tónlist sem hópur og hvaðan kom hugmyndin að þessu verkefni?
"Tónar og Trix hófu göngu sína vorið 2007 á námskeiði sem bar yfirskriftina: „Skapandi tónlistarnámskeið fyrir eldri borgara í Ölfusi“, en það var hluti af lokaverkefni mínu frá Listaháskóla Íslands og átti að standa yfir í tvær vikur. Þessar tvær vikur voru alveg stórskemmtilegar og gefandi bæði fyrir mig og þau svo ákveðið var að halda þessu starfi áfram. Ástæðan fyrir því að ég valdi Þorlákshöfn var af því að ég er uppalin þar og það er svo gott að geta gefið til baka í samfélag sem gaf manni svo mikið á uppvaxtarárunum.
Á þessum átta árum sem nú eru liðin hafa Tónar og Trix gert ótrúlega hluti saman og verið í mússíkalskri ævintýraför þar sem þau hafa fengist við ýmislegt sem þau töldu sig ef til vill fæst eiga eftir að gera nú á sínum efri árum."
Syngja lög úr öllum áttum
Hvernig tónlist eru þið að einbeita ykkur mest að?
"Það skemmtilega er að við erum ekki að einbeita okkur að neinni sérstakri tegund af tónlist, heldur höfum við sungið lög úr öllum áttum. Bæði þessi gömlu góðu sem allir þekkja og svo líka ný lög sem hafa verið að koma út með hinum ýmsu listamönnum síðustu árin. Vorið 2014 héldu Tónar og Trix til dæmis samstöðu- og baráttutónleika til þess að vekja athugli á skorti á hjúkrunarrýmum í Þorlákshöfn. Þar var þemað ný íslensk dægurlög og höfðum við popphljómsveit með okkur. Þá fluttum við meðal annars lög eftir hljómsveitina Valdimar, Of Monsters and Men og Ásgeir Trausta. Þeim finnst flestum alveg jafn skemmtilegt að syngja þau lög eins og þessi gömlu þrátt fyrir að þau séu mögulega erfiðari til að byrja með, en þá er svo gaman að takast á við þau og læra eitthvað nýtt."
Þið eruð búin að vinna með tónlistarmönnum úr ýmsum áttum, segðu mér aðeins frá því?
"Núna síðustu mánuði höfum við aldeilis staðið í stórræðum því Tónar og Trix eru búin að taka upp plötu sem fyrirhugað er að komi út nú í lok maí. Í þessu verkefni eru Tónar og Trix umvafin ótrúlega flottu og hæfileikaríku tónlistarfólki en þau eru með frábæra hljómsveit sem spilar með og einnig gestasöngvara og hljóðfæraleikara sem öll eru landsmönnum kunn. Þar má nefna Kristjönu Stefánsdóttur, Sölku Sól, Unnstein Manúel, Sigtrygg Baldursson og Jónas Sig. Til gamans má geta að móðir Jónasar er í Tónum og Trix og þau eiga lag saman mæðginin sem hópurinn söng inn á síðustu plötu hans og kemur nú út í nýrri útsetningu á þessari plötu. Flest lög á plötunni eru þekkt dægurlög á íslensku frá mismunandi tímum og í latin stíl en þar er líka að finna lag og texta sem Tónar og Trix bjuggu til í sameiningu og lag eftir Erlu Markúsdóttur sem er „Trixari“, en þetta er í fyrsta sinn sem hún sýnir þessa hæfileika sína opinberlega."
Á meðal þeirra sem hópurinn hefur unnið með eru Salka Sól og Unnstein Manúel.
Tónar og Trix eru með síðu á karolinafund.com þar sem hægt er að hálpa þeim að gefa út plötuna og fá í staðin til dæmis eintak af plötunni eða miða á útgáfutónleikana þeirra. En þau munu, ásamt öllum þeim sem koma að plötunni, halda tvenna útgáfutónleika, í Þorlákskirkju 31. maí og í Gamla bíó 2. júní. Við hvetjum fólk á öllum aldri til þess að koma og eiga með okkur þessa stóru stund þegar við fögnum fyrstu plötunni okkar á þessum tónleikum.