Hljómsveitin Grísalappalísa var stofnuð árið 2012 af þeim Gunnari Ragnarssyni, sem var áður forsöngvari hljómsveitarinnar Jakobínurínu, og góðvini hans Baldri Baldurssyni, áður pizzugerðarmanni. Þeir félagar syngja báðir og semja texta sveitarinnar.
Hugmyndin um hnífbeitt íslensk ljóð í takt við töff og kúl rokk er ekki ný af nálinni hjá þeim piltum, en tal og þreifingar um slíka blöndu hófust, að sögn Alberts Finnbogasonar meðlim hljómsveitarinnar, árið 2010. Gunnar og Baldur hópuðu saman tónlistarmönnum úr vinahópi sínum, en allir eru þeir rótfastir í grasrót íslensk tónlistarlífs.
Ásamt þeim Gunnari og Baldri eru hljómsveitarmeðlimir Albert Finnbogason, sem leikur á rafmagnsgítar. En Albert hefur m.a. leikið með hljómsveitunum The Heavy Experience, Swords of Chaos, Skelkur í Bringu og tónlistarkonunni Sóley. Albert er með BS-gráðu í jarðfræði frá Jarðvísindadeild Háskóla Íslands. Bergur Thomas Anderson leikur á bassagítar. Bergur hefur m.a. leikið með hljómsveitunum Oyama, Sudden Weather Change og Just Another Snake Cult. Bergur er með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands en nemur nú heimspeki við Háskóla Íslands.
Á trommusett leikur Sigurður Möller Sívertsen. Sigurður hefur m.a. leikið með hljómsveitunum Jakobínarína og Dream Central Station. Sigurður er nú utan landsteina í námi í kvikmyndagerð við Sarajevó, en áður lauk hann námi frá FAMU International í Prag, Tékklandi.
Á saxófón leikur Tumi Árnason. Tumi hefur m.a. leikið með hljómsveitunum Ojba Rasta, The Heavy Experience, Just Another Snake Cult, Úlfi Hanssyni og Tonik. Rúnar Örn Marínóson, hóf leik með hljómsveitinni á tónleikum eftir útkomu ALI. Fyrst á trommur en nú á rafgítar. Hann er einnig meðlimur hljómsveitarinnar Oyama og gerði garðin ágætlega frægan með hljómsveitunum Hello Norbert og Me, The Slumbering Napoleon. Rúnar Örn stundar nám í myndlist við Listaháskóla Íslands.
Albert Finnbogason var tekinn tali.
https://www.youtube.com/watch?v=t5OlALTiQco
Ákveðið "statement” í að nefna sveitina eftir Megasarlagi
Hvert er upphaf hljómsveitarinnar Grísalappalísa og hvaðan kemur þetta sérkennilega nafnið?
"Hljómsveitin Grísalappalísa varð til upp úr gömlum vinskap, en þreifingar hófust upp úr 2010. Hugmyndin var að blanda hnífbeittum íslenskum prósa við rokk tóna. Gunnar og Baldur voru með glósubók fulla af textum þegar þeir hófu að banka upp á hjá gömlum félögum. Úr varð félagsskapurinn sem nú skipar Grísalappalísu. Nafnið “Grísalappalísa” er tekið frá samnefndu Megasarlagi sem finnst á plötunni Drög að Sjálfsmorði frá árinu 1977. Í laginu er talað um Lísu sem er “mesta frík á Fróni” og það þótti okkur viðeigandi lýsing á sveitinni. Eins og gefur augaleið, eru textasmiðir hljómsveitarinnar miklir aðdáendur meistarans og fannst þeim fólgin ákveðið "statement” í að nefna sveitina eftir Megasarlagi. Á síðasta ári kom Grísalappalísa þrisvar fram á tónleikum ásamt Megasi – á tónlistarhátíð Reykavík Grapevine, þar sem sveitin hafði fengið verðlaun fyrir að vera besta tónleikasveit landsins, Innipúkanum um Verslunarmannahelgina og Iceland Airwaves, sem var fyrsti perfomans Megasar í sögu hátíðarinnar."
https://www.youtube.com/watch?v=topZf4i-aoA
Hvernig tónlist eru þið aðallega í?
"Tónlistin okkar er heldur víðfem þó að alltaf komi hún við í rótunum sem eru rokk og rytmablús. Við reynum að gefa textanum góðan farveg og reynum að binda tónsmíðarnar ekki um of í fjötra svo ef að andagiftinni slær niður á miðjum tónleikum þá ríkir fullt skáldaleyfi."
Þið eruð að vinna að því að vinna að fjármögnun útgáfu vínylplötu, segðu okkur aðeins frá því verkefni?
Með Karólína söfnuninni sem nú er í gangi (á) þá erum við að leitast eftir að finna styrktaraðila til að fjármagna útgáfu tónlistar Grísalappalísu á vínyl. Okkur finnst tónlistin okkar njóta sín best í albúm-formi hljómplötunnar, en hingað til hafa breiðskífur sveitarinnar aðeins komið út á geisladisk. Söfnunin er mjög einföld þar sem við biðlum í raun til fólks að for-panta sitt eintak af plötunum okkar. Um er að ræða tvær breiðskífur, Ali og Rökrétt framhald og svo glæný tvöföld tónleikaplata frá ferðalagi okkar um Ísland síðasta sumar, en hún ber nafnið Sumar á Gríslandi. Til að krydda tilveruna bjóðum við líka upp á að breiða yfir lag að eigin vali, tónleika í einkahúsi og sitt lítið fleira.