Sölvi Tryggvason hefur á undanförnum áratug unnið við fréttir og dagskrárgerð í íslensku sjónvarpi, auk ritstarfa. Sölvi starfaði um árabil sem fréttamaður á Stöð 2 og vann við og ritstýrði Íslandi í Dag á sömu sjónvarpsstöð. Hann hefur auk þess framleitt og ritstýrt 10 seríum af sjónvarpsþáttunum ,,Spjallinu með Sölva" og fréttaskýringaþættinum ,,Málinu" á undanförnum árum, sem hvor um sig hafa hlotið ítrekaðar tilnefningar til Edduverðlauna. Sævar Guðmundsson leikstjóri hefur unnið við kvikmyndagerð í áraraðir. Venni Páer, Réttur, Stelpurnar, Sönn íslensk sakamál, Ávaxtakarfan og Hæpið eru allt þættir sem hann hefur leikstýrt. Hann hefur einnig leikstýrt fjölda auglýsinga heima og erlendis.
Þeir vinna nú að gerð heimildarmyndar um íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu og ótrúlegan árangur þess í undankeppni EM, sem hefur skilað liðinu í lokakeppnina í Frakklandi sumarið 2016. Þeir safna nú fé til að geta klárað myndina á Karolina Fund. Kjarninn ræddi við Sölva.
https://vimeo.com/137926454
Hvaða merkingu hefur það fyrir okkur litlu þjóðina að eiga þetta stóra lið?
"Það að eiga knattspyrnulið í fremstu röð fyrir þjóð sem telur aðeins rétt rúmlega 300 þúsund manns er í raun stórmerkilegt. Þegar haft er í huga að knattspyrna er langstærsta og vinsælasta íþróttagrein í heimi er magnað að vita til þess að þessi örþjóð hafi náð svo stórbrotnum árangri. Enda er Ísland með árangrinum í undankeppni EM orðin fámennasta þjóð sögunnar til að komast á stórmót í knattspyrnu karla. Hingað til hefur handboltalandsliðið séð um að þjappa þjóðinni saman, en nú eru allra augu á knattspyrnulandsliðinu í fyrsta sinn."
https://youtu.be/JEMRKYXO6_M
Hefur mikla þýðingu fyrir íslenska menningu
Fáum við eitthvað að skyggnast á bakvið tjöldin og kynnast leikmönnunum okkar og þjálfurum?
"Í myndinni munum við fá að kynnast því starfi sem á sér stað í kringum landsliðið á algjörlega nýjan máta. Að baki hverjum einasta leik er mikill undirbúningur og dagana fyrir leik er reglan á hlutunum algjör og hugsað fyrir minnstu smáatriðum. Við höfum myndað og tekið viðtöl á stöðum þar sem það hefur ekki verið gert áður, svo sem í sjúkraherbergjum, búningsklefum eftir leiki, á hóteli fyrir leiki og á liðsfundum. Óhætt er að fullyrða að fólk muni sjá hlutina í dálítið nýju ljósi þegar varpað er ljósi á þessar hliðar."
Hvaða þýðingu hefur það fyrir íslenska menningu að eiga þessa heimildarmynd í safninu?
"Það hefur mikla þýðingu fyrir íslenska menningu að eiga þessa mynd í safninu, þar sem flestir eru sammála um að um stærsta íþróttaafrek Íslandssögunnar sé að ræða. Við höfum náð tugum klukkustunda af heimildum í allri undankeppninni, sem hvergi hafa birst og hvergi munu birtast nema í þessari mynd. En verkefnið er dýrt og við reynum nú að láta slag standa með hópfjármögnun á Karolina Fund, þar sem reynt er að brúa það bil sem upp á vantar svo okkur takist að búa til mynd sem við getum öll orðið stolt af."