Listin sem leynist undir skinninu er ný heimildarmynd eftir Matthías Má Magnússon og Eggert Gunnarsson um húðflúr-menninguna á Íslandi. Myndin er verkefni vikunnar hjá Karolina Fund. Við tókum viðtal við framleiðendurna Eggert og Matthías.
Eggert: „Ég er hef unnið við sjónvarp lengi og síðustu árin hef ég til að mynda leikstýrt Ævari vísindamanni og framleitt þá þáttaröð. Að auki hef ég unnið mikið við tónlistartengt efni. Þar má nefna Tónaflóð, Stórtónleika Rásar 2 á Menningarnótt, Músíktilraunir og svo hef ég átt gott samstarf við KÍTON og er að vinna með þeim stórt verkefni sem nefnist Eldsmiðjan. Að auki hef ég unnið heimildarmyndir um til dæmis Yrsu Sigurðardóttur, Rósu Gísladóttur og heimildarmyndina Fyrirheitna landið? um Íslendinga sem flutt hafa til Noregs.
Það virðist vera mikil áhugi á húðflúri um þessar mundir. Þeir sem eru ekki með húðflúr eins og ég erum líklega í minnihluta. Það var það sem mig langaði að skoða og það líka að það virðist vera mikill metnaður í því að vinna myndverk sem skipta máli á húð fólks.
Það kom mér mjög á óvart hversu vel menntuð þau eru sem stunda þessa listgrein hér á landi. Við fjöllum um þau öll á einhvern hátt og ætlum líka að reyna að skoða það sem þeir sem eru fluttir annað hafast að. Það eru nokkrir flúrarar sem eru að gera það gott erlendis.
Við sækjum í Karolina Fund vegna þess að það er ekki um auðugan garð að gresja hvað varðar fjármögnun á verkefnum sem þessum. Við eru að leita til fólks og bjóða þeim að taka þátt í þessu verkefni með okkur. Það er ýmislegt sem er í boði fyrir þá sem leggja okkur lið. Endilega skoðið það á síðunni okkar á Karolina Fund.“
Hér má sjá annan framleiðanda myndarinnar, útvarpsmanninn Matthías Má á Rás 2, fá sér húðflúr.
Hvaðan kemur áhugi ykkar á tattú menningunni?
Matti: „Ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á þessu listformi og á týpunum sem verða húðflúrarar. Þetta er svona „sub-culture“ sem er að springa út núna. Svo er þessi saga á Íslandi svo stutt, rétt rúmlega 30 ár eða svo.“
Þó það virðist sem að tattú séu núna fyrst að verða almenn þá eru þau ekki ný af nálinni, ef svo má segja. Er ekki heilmikil saga í kringum tattú?
„Það er svo sannarlega mikil og löng saga sem spannar mörg þúsund ár. Lengi var talið að Egyptar til forna hafi verið fyrstir til að nota þetta tjáningarform. Merki um húðflúr hafa fundist á múmíum. En nýverið fannst Ísmaðurinn svokallaði. Hann átti sér heimkynni á landamærum Ítalíu og Austurríkis. Þessi fundur gefur það til kynna að húðflúr hafi verið tjáningarform mannfólks í að minnstakosti 5200 ár.
Hér á Íslandi var ekki hægt að láta húðflúra sig fyrr en eftir 1980.“
Hafið þið orðið varir við einhverja breytingu varðandi þetta listform í hugarheimi íslendinga á síðustu 20 - 30 árum?
„Já, svo sannarlega, fyrir 20 til 30 árum voru nær eingöngu sjómenn sem fengu sér tattoo. En í dag eru allir að fá sér tattoo og virðist aldur ekki skipta neinu máli. Það sem er einnig áhugavert við tattoo í dag er að það virðist allt ganga, það er að segja það er engin einn stíl í tísku eins og til dæmis „tribal“ tattoo voru á tíunda áratugnum. Tattoo í dag er bara ekkert tiltöku mál eins og það var fyrir 20 til 30 árum síðan. Það eru allir með tattoo núna.“