Ásgeir H. Ingólfsson er örvhent örverpi og ljóðskáld. Hann er að safna á Karolina Fund fyrir Framtíðinni, sem er prósaljóðabók en ekki eilífðin óorðna. 2010 sendi hann frá sér ljóðabókina Grimm ævintýri hjá Nýhil útgáfu, og hefur dundað sér við blaðamennsku, bóksölu og kennslu á meðan ljóðin komu til hans úr framtíðinni.
Hvaðan kom hugmyndin að ljóðabókinni?
Hugmyndin kom raunar þegar ég var búinn að skrifa megnið af bókinni. Ég var vansvefta eftir nokkra skrítna daga og fannst ég þurfa að skrifa mig í gegnum ákveðna hluti – en svo hélt ég bara áfram, langt fram á morgun – og þá var ákveðinn grunnur kominn að bókinni, grunnur sem ég vann að áfram næstu vikurnar.
Það sem kom til mín var í rauninni ákveðin rödd, ákveðinn tónn; hrekkjóttari, kersknari, miskunarlausari og jafnvel andstyggilegri en nokkuð sem ég hafði skrifað áður – en þegar ég fékk svo einn kunningja minn til að lesa handritið yfir þá minntist hann sérstaklega á að hann væri hrifinn af því hvað væri mikil samkennd í þessum ljóðum. Sem ég held að gæti verið rétt hjá honum – þessi rödd er bæði grimm og miskunsöm – og líklega er það lykillinn – ljóð þurfa að vera bæði til að geta tekist á við heiminn fyrir alvöru.
Hvar sóttirðu helst innblástur?
Stundum er innblásturinn persónulegur – og það eru tvö ljóð í bókinni sem kveiktu eldinn, ég ætla að leyfa væntanlegum lesendum að giska á hvaða ljóð það voru. En þegar ég var búinn að skrifa þau skrifaði ég titilljóðið, Framtíðina, og þá var ég búinn að finna tóninn.
Eftir það sótti ég í raun innblástur í framtíðarskáldskap æskunnar – hvort sem það voru bíómyndir eða bækur eða heimsendaspár – það sem ég varð fljótlega heillaður af var að horfa alltaf fram á við – þótt ég væri staddur í fortíðinni.
Við erum nefnilega ótrúlega vön að skilja tíðirnar dálítið eins og áttir; ef við horfum afturábak erum við að horfa til fortíðar, nútíðin er þar sem við stöndum núna og framtíðin er vegurinn framundan. En ég vildi reyna að prófa að horfa alltaf fram fyrir mig – líka þegar ég er staddur í fjarlægri fortíð.
Bókin skiptist í þrjá hluta, fortíð, nútíð og framtíð – og í fyrsta hlutanum eru Jóhanna af Örk, Henry Ford, Wright-bræður og fleiri að velta fyrir sér framtíðinni – sem er stundum okkar nútíð eða jafnvel okkar fortíð.
Teikningin sem ég hef notað með söfnuninni er ágætis dæmi um framtíðina í fortíðinni – þetta er japönsk mynd af lestum framtíðarinnar – sem var teiknuð árið sem pabbi fæddist, þegar mín veröld var bara vísindaskáldskapur.
Framtíð minnar eigin fortíðar var svo auðvitað Marty McFly á svifbretti þann 21. október 2015. Sú framtíð er að bresta á – þannig að það er ekki seinna vænna en að koma þessari bók út.
Hvaða umfjöllunarefni er að finna í ljóðabókinni?
Ég er búinn að minnast á nokkur þeirra nú þegar – en ég er líka að fjalla um gullgerðarlist og dróna, Sarajevo og unglingsárin, ambögur og amöbur, Al-hambra og kakó, Guð og Evrópusambandið, kýpverska rakara og krímversk ástarævintýri, Angelinu Jolie og Brad Pitt, búsáhaldabyltinguna og Chernobyl – en samt er ég líklega aðallega að fjalla um kapítalisma.
Bókin er auðvitað fyrst og fremst um tímann – en þegar kapítalisma er komið á þá er tíminn fyrsta virkið sem hann hertekur. Eftir það mælum við líf okkar í vinnustundum og framtíðin verður föstudagur. Eða mánudagur, ef þú ert að skrifa dystópíu.
Eitthvað að lokum?
Að lokum er rétt að geta þess að ég skrifaði ekki alla bókina sjálfur – kanadíska ljóðskáldið Keanu Reeves, íslenska ljóðskáldið Matthías Jochumson og armenska ljóðskáldið Obe Vadur eiga allir gestaljóð í bókinni. Mig langar að þakka þeim sérstaklega fyrir – sem og auðvitað yfirlesurum, prófarkalesurum, kápuhönnuðum, uppsetjurum og vídjógerðarmönnum – að ógleymdum þeim sem styrktu bókina á Karolinu Fund. Þú hefur framtíðina fyrir þér til þess að verða hluti af þessum þakkarlista –til 5. október næstkomandi.