Á haustmánuðum 2013 safnaði Sirkus Íslands fyrir fyrsta sirkustjaldinu hér á landi. Hópurinn safnaði sex og hálfri milljón króna og fengu allir styrkjendur miða í sirkusinn síðasta sumar. Hátt í 22.000 manns sáu sýningar sirkussins fyrsta íslenska sirkussumarið á Ísafirði, Akureyri, Selfossi, í Reykjanesbæ og Reykjavík. „Og núna söfnum við fyrir öðru sirkusferðalagi, á sama hátt - allir sem styrkja eru í raun að kaupa miða næsta sumar," segir Margrét Erla Maack upplýsingafulltrúi og sirkusdýr.
Í sumar stefnir hópurinn á Goslokahátíð í Vestmannaeyjum, Húnavöku á Blönduósi, Franska daga á Fáskrúðsfirði og Síldarævintýrið á Siglufirði auk þess að tjalda á Klambratúni í Reykjavík.
Aftur í hópfjármögnun
Þið eruð búin að safna fyrir sirkustjaldinu, af hverju ráðist þið aftur í hópfjármögnun?
"Hópfjármögnun skemmtileg leið til að fjármagna svona óvenjulegt batterí eins og sirkusferðalag er. Við erum líka hrifin af því að geta boðið sirkusmiðana á lægra verði fyrir þá sem styrkja okkur á þessum tímapunkti - og það þarf ekki að negla niður tímasetninguna á því þegar maður vill nota miðann sinn. Við þurfum að reiða alls konar kostnað af hendi núna og okkur langar líka að poppa sýningarnar okkar upp, kaupa fleiri græjur og þess háttar. Að leita til fólksins á þennan hátt er stórskemmtilegt, og mun meira spennandi en að fara hefðbundari leiðir. Við höfum aldrei hlotið neina opinbera styrki, heldur fjármögnum við okkar starf með því að koma fram við ýmis tækifæri, reka sirkusskóla fyrir börn og með sirkussýningum."
https://vimeo.com/121854755
Hvað má fólk búast við að sjá í sirkusnum?
"Bókstaflega allt sem fólk tengir við sirkus. Í stóru fjölskyldusýningunni Heima er best er að finna allt sem fólk tengir við sirkus: Trúða, loftfimleika, grippl (djöggl), jafnvægislistir, hjólaskauta, húllahringi... og margt fleira. Krakkasýningin S.I.R.K.U.S. er styttri og ljúfari, með örlitlum söguþræði og er kynning á sirkusforminu fyrir leikskólaaldurinn, þó ekki á kostnað eldri áhorfenda. Pabbi minn, 65 ára, sá hana tíu sinnum síðasta sumar og fannst hún mjög skemmtileg. Svo erum við með fullorðinssirkussýningu sem ber heitið Skinnsemi. Það er kabarettsirkus með fullorðinsbragði. Margir halda að sirkus sé bara fyrir börn, en fullorðna fólkið gapir alveg jafn mikið á sýningunum okkar. Sirkus Íslands notar ekki dýr, bara heimaræktaða hæfileika. Við vorum samt að pæla í því að vera með íslenskan sirkusfýl, en eftir því sem við pældum meira í því varð hugmyndin verri og verri."
Það er, ótrúlegt en satt, hægt að lifa á því að vera sirkuslistamaður á Íslandi.
Hægt að lifa á því að vera sirkuslistamaður
Er hægt að lifa á því að vera sirkuslistamaður á Íslandi?
"Þótt ótrúlegt megi virðast, þá er svarið við þessari spurningu: Ójá. Við vorum tíu sem stofnuðum sirkusinn 2007, með forsprakkann Lee Nelson í fararbroddi. Við flest litum þá á þetta bara sem hobbí en hann hefur slípað þetta kompaní á þann stað sem það er í dag. Núna störfum við allt árið, og margir í fullu starfi. Við rekum sirkusskóla og höldum sirkusnámskeið fyrir börn og framtíðin er sannarlega björt. Þrjú af hópnum nema sirkuslistir í Codarts listaháskólanum í Rotterdam og við erum dugleg að fá til okkar gestakennara til að verða betri og betri. Sirkusstórfjölskyldan telur núna 30 manns, og við störfum allt árið, sem kemur fólki á óvart. Hápunktur ársins er sirkusferðalagið. En ég meina, það væri enginn sirkus ef ekki væru áhorfendur."
Hvernig er lífið á sirkusferðalagi?
"Það er bæði ljúft og erfitt. Erfitt því við erum að allan daginn, alla daga, og við sjálf setjum tjaldið upp og tökum það niður og það er mikil vinna. Sirkuslistafólkið gengur í öll störf, við eldum, sópum, afgreiðum í sjoppunni, seljum miðana... þetta er eins og stórt heimili sem ferðast um. Auðvitað verða bæði ástir og árekstrar til í svona nánu samstarfi. Við ferðumst á þriðjudegi, setjum tjaldið upp á miðvikudegi, sýnum fimmtudag, föstudag, laugardag og sunnudag og pökkum saman og tökum tjaldið niður á mánudegi. En lífið er ljúft þegar maður er umkringdur ótrúlegu hæfileikafólki og starfar við að láta draumana sína rætast."
Sirkus Íslands hefur áður nýtt sér hópfjármögnun á Karolina Fund til að safna fyrir sirkustjaldinu sínu. Sýningar hans nutu mikilla vinsælda síðasta sumar.
Sirkusferðalagið 2015 verður á þessa leið:
-
-
- júlí: Goslokahátíð í Vestmannaeyjum
-
-
-
- júlí: Reykjavík
-
-
-
- júlí: Húnavaka á Blönduósi
-
-
-
- júlí: Franskir dagar á Fáskrúðsfirði
-
-
júlí - 3. ágúst: Síldarævintýrið á Siglufirði
-
-
- ágúst: Reykjavík
-
Hægt er að styrkja ferðalagið og næla sér þannig í miða í sumar hér.