Sveifludjasshljómsveitin Secret Swing Society hefur verið að eignast aðdáendur hér á landi í sumar, en lag sem þeir gerðu með Björgvini Halldórssyni og hefur heyrst mikið á Rás 2 undanfarið, verður á væntanlegri plötu þeirra sem er í fjármögnun á Karolina Fund. Kjarninn ræddi við Andra Ólafsson um verkefnið.
1. Hvenær og hvernig varð ‘Secret Swing Society’ til?
„Hljómsveitina stofnuðum við, fimm gamlar sálir, í Amsterdam árið 2010. Kristján Tryggvi Martinsson píanóleikari, Grímur Helgason klarinettleikari og undirritaður [bassaleikari] vorum allir við tónlistarnám í Conservatorium van Amsterdam, sem og Guillaume Heurtebize, gítarleikari frá Frakklandi og Dominykas Vysniauskas, trompetleikari frá Litháen. Við höfðum verið að spila saman í hinum og þessum verkefnum þegar við hóuðum í kvintetthitting og hópurinn small svona líka vel saman.“
2. Hvernig tónlist ómar frá Secret Swing Society og hvaðan sækiði innblásturinn?
„Það er gleðitónlist sem yfirleitt er nærtækast að kenna við sveifludjass – við erum í grunninn að gera popptónlist millistríðs- og stríðsáranna skil án mikilla stæla eða nútímakrydds. Þetta eru sönglög í fjölradda útsetningum; gamlir standardar, söngleikjalög og smellir sem voru samdir og/eða gerðir frægir af fólki á borð við Mills bræður, Fats Waller, Nat King Cole, Gerswhin bræður o.fl, en líka lög eftir okkur sjálfa. Til að byrja með sungum við ekki, og við erum þess vegna með heilmikinn katalóg af instrumental djassi útsettum og æfðum, þar sem tónlist Django Reinhardt og Duke Ellington er fyrirferðarmikil.“
[soundcloud id="https://soundcloud.com/secret-swing-society/glans-feat-bjorgvin-halldorsson"]
Auglýsing
3. Hvað stendur til núna hjá Secret Swing Society?
„Það sem ber náttúrulega hæst er platan okkar sem við tókum upp í febrúar og erum að fjármagna hjá Karolina Fund. Við erum að jafnaði í þremur mismunandi löndum, þannig að tækifæri okkar til tónleikahalds eru fá miðað við margra hljómsveita. Við höfum þó náð að spila að minnsta kosti einu sinni á ári tónleikaröð allir fimm saman síðan við lukum námi, og reynum að halda því áfram. Við stefnum annars á meira samstarf við Bo og erum að kasta hugmyndum á milli. Það tekur líklega á sig einhverja mynd í vetur.“
Verkefnið er að finna hér.