Högni Páll Harðarson og Unnur Sveinsdóttir skelltu sér í 5 mánaða ferðalag sumarið 2014, þar sem þau heimsóttu 20 lönd á mótorhjóli. Fylgjendahópur þeirra stækkaði ört eftir því sem leið á ferðalagið og kom að því að þau ákváðu að gefa út ferðasöguna á bók.
Við hittum Unni og Högna og tókum þau tali.
Unnur er myndlistarmenntaður kennari, áhugaleikhúsmanneskja og hönnuður sem er að uppgötva fegurð mótorhjólaferðamennskunnar á miðjum aldri. Högni er viðskiptavélfræðingur með þráhyggjukennda ástríðu fyrir mótorhjólaferðalögum og öllu sem því tengist. Þau eru Austfirðingar búsett á Fáskrúðsfirði í Fjarðabyggð í rétt um 80 km fjarlægð frá einu ferjuhöfn landsins sem tengir það við meginland Evrópu.
Heit súpa í hádeginu í kaldri Síberíu.
Hvernig kviknaði hugmyndin að þessu verkefni?
Mið-Asíu leiðangurinn sem við fórum í árið 2014 var búinn að eiga sér töluverðan gerjunartíma og var búinn að taka á sig ýmsar myndir í aðdragandanum. Við erum búin að fara all nokkrar ferðir erlendis á mótorhjólum og það má kannski segja að 6 vikna ferðalag um Balkanskagann og fyrrum lýðveldi Júgóslavíu árið 2010 hafi fyrir alvöru kveikt áhugann á því að takast á við meira framandi slóðir en áður. Til að tryggja að vinir og vandamenn vissu af okkur frá degi til dags þá héldum við úti Facebook síðu, hún fór síðan að vekja athygli víðar en innan fjölskyldunnar og þegar við vorum komin nokkrar vikur inn í ferðalagið þá áttum við orðið 6-700 ferðafélaga sem fylgdust með því sem við vorum að fást við. Þaðan kemur síðan hvatningin um að koma ævintýrinu á prent.
Eftirlit á þjóðvegi í Úsbekistan.
Til hvaða landa ferðuðust þið?
Leiðin lá í gegnum 20 lönd og sum þeirra oftar en einu sinni. Fyrst komu Færeyjar, þá Danmörk, Þýskaland, Pólland, Hvíta-Rússland og og síðan Rússland frá vestri allt austur til Ulan-ude í Síberíu áður en komið var til Mongólíu. Í Mongolíu var snúið til vesturs og í suður og farið um Stan-löndin svokölluðu, Kasakstan, Kyrgyzstan, Tadsíkistan, Úsbekistan. Þá norður fyrir Kaspíhaf og um Kákasus löndin Georgíu og Armeníu, síðan um Tyrkland, Grikkland, Búlgaríu, Serbíu, Ungverjaland og áfram norður úr til Danmerkur í veg fyrir ferjuna á ný.
Hvernig var upplifunin af þessu ferðalagi?
Ævintýri er líklega það orð sem best lýsir ferðalaginu. Dagarnir 147 sem það tók voru jafn misjafnir og þeir voru margir og alltaf eitthvað nýtt að fást við. Löndin voru okkur flest mjög framandi og sannarlega mikil áskorun að ferðast þar sem sameiginleg tungumálakunnátta er í algeru lágmarki.Vegakerfið var líka víða töluvert krefjandi en það er þó meðal annars það sem rekur bifhjólafólk til landa eins og Mongólíu, Tadsíkistan og Kyrgyzstan en þangað fara menn til að reyna sig og hjólin sín við erfiðar aðstæður. Öfugt við það sem flestir halda og draga þá ályktun af fréttaflutningi fjölmiðla þá er mun meira af góðu fólki í heiminum heldur en vondu og það er kannski það sem uppúr stendur eftir ferðina. Allt góða fólkið sem við hittum.
Þegar kom að því að gera bók um ferðina og gefa hana út þá áttuðum við okkur fljótlega á því hversu kostnaðarsöm bókaútgáfa er. Eins ef maður vill vanda til verka eykst kostnaðurinn í réttu hlutfalli. Þessa fjármuni þarf að greiða áður en nokkur bók selst og það þýðir í flestum tilfellum dýr bankalán. Karolina Fund er ótrúlega sniðugur vettvangur fyrir fólk eins og okkur og aðra sem eru að reyna að koma sér á framfæri því hér opnast möguleikinn á að selja vöruna sína í forsölu og fjármagna þannig að einhverju leyti þau útgjöld sem fylgja útgáfu.
Að auki höfum við á þessum tíma sem söfnunin hefur staðið átt í lifandi samskiptum við stóran hóp verðandi lesenda sem er frábært því fyrir vikið verða þeir ekki bara tölur á sölulista heldur fólk sem við þekkjum. Það gerir vöruna miklu persónulegri fyrir kaupandann og þannig meira virði.
Auglýsingagildið sem felst í svona söfnun er líka ómetanlegt því forsíðan á bókinni okkar hefur verði linnulítið á síðum fésbókarinnar undanfarnar vikur og vinir og velunnarar hafa deilt henni um allar trissur.
Verkefnið má finna hér.