Einn ráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, hefur óskað eftir undanþágu frá lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands til að gegna aukastarfi samhliða ráðherraembætti. Þar sem ráðuneyti Katrínar er það sem hefur eftirlit með lögunum þurfti hún að fela öðrum ráðherra að taka ákvörðun um hvort slík undanþága væri í lagi eða ekki. Á ríkisstjórnarfundi í morgun var Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, settur til að fara með málið. Hann á enn eftir að taka ákvörðun um hvort undanþágan verði veitt.
Undanþáguna þarf Katrín vegna þess að hún er að skrifa bók, glæpasögu, með metsöluhöfundinum Ragnari Jónassyni. Verkefnið er ekki ný til komið né hefur það farið lágt. Ragnar greindi til að mynda frá því í viðtali við breska dagblaðið The Times fyrir um ári síðan.
Hægt að veita undanþágu
Í byrjun árs í fyrra tóku gildi lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands. Í þeim segir að störf æðstu stjórnenda og aðstoðarmanna ráðherra teljist full störf. Þeim sé óheimilt að sinna aukastörfum samhliða störfum í Stjórnarráði Íslands.
Samkvæmt lögunum getur ráðherra hins vegar veitt undanþágu ef fyrirhugað aukastarf telst til mannúðarstarfa, kennslu- eða fræðistarfa, vísindarannsókna, listsköpunar eða annarra og tilfallandi starfa svo fremi að það hafi ekki áhrif á störf viðkomandi í Stjórnarráði Íslands og greiðslur fyrir aukastörfin teljast innan hóflegra marka.
Ráðuneytisstjóri fékk að setjast í stjórn LSR en þurfti svo að hætta
Í svari ráðuneytisins kemur fram að því hafi borist undanþágubeiðni frá tveimur aðstoðarmönnum ráðherra. Í öðru tilvikinu var Ólafi Elínarsyni, aðstoðarmanni félags- og vinnumarkaðsráðherra, veitt undanþága til að sitja í stjórn landsnefndar UN Women á Íslandi en í hinu tilvikinu var beiðninni synjað. Forsætisráðuneytið greinir ekki frá því hvaða aðstoðarmanni var synjað um að sinna aukaverki né um hvaða aukaverk var að ræða.
Þá var Guðmundi Árnasyni, ráðuneytisstjóra í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, veitt undanþága árið 2021 til þess að sitja í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR). Seðlabanki Íslands gerði hins vegar margháttaðar athugasemdir við það að einn æðsti stjórnandi fjármála- og efnahagsráðuneytisins sæti í stjórn stærsta lífeyrissjóðs landsins. Slík stjórnarseta gæti auðveldlega valdið hættu á hagsmunaárekstrum. LSR er til að mynda umsvifamikill kaupandi ríkisskuldabréfa. Guðmundur sagði sig úr stjórninni eftir að Seðlabankinn sendi bréf á ráðuneytið með gagnrýni sinni í apríl í fyrra.
Fjórir skrifstofustjórar fengið undanþágu
Fjórir skrifstofustjórar hafa sótt um undanþágu frá lögunum. Fallist var á beiðni þriggja en einn dró beiðni sína til baka áður en hún var afgreidd.
Ekki er tilgreint um hverja er að ræða í svari forsætisráðuneytisins en fyrir liggur að Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, fékk undanþágu frá forsætisráðuneytinu í apríl 2021 til að taka að sér aukastörf þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, skipaði hann til að taka við sem formaður stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Stjórnarlaun formanns sjóðsins eru 320 þúsund krónur á mánuði.
Í svarinu segir að endingu: „Loks hefur einn ráðherra óskað eftir undanþágu til að gegna aukastarfi en umsóknin er enn í vinnslu.“ Sá ráðherra er forsætisráðherra sjálfur, líkt og rakið er hér að ofan.
Samkvæmt lögunum um varnir gegn hagsmunaárekstrum á að birta á vef Stjórnarráðsins undanþágur sem ráðherrar, aðstoðarmenn þeirra og ráðuneytisstjórar hafa fengið. Undanþágur skrifstofustjóra og sendiherra eru á hinn bóginn undanþegnar upplýsingaskyldu almennings.