Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segist ekki sjá sig fyrir sér í embætti forseta Íslands en viðurkennir að hún hafi fengið örfáar áskoranir um að bjóða sig fram. Það sé þó alveg á hreinu að hún sé ekki að undirbúa framboð til forseta. Þetta kom fram í viðtali við hana í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni fyrr í dag.
Flokkakerfið í "rosalegri deiglu"
Katrín fór um víðan völl í um tveggja klukkustundar löngu viðtali. Hún sagði til að mynda að íslensk stjórnmál og flokkakerfi þess vera að ganga í gegnum mikið breytingarskeið sem hófst eftir hrun og sé ekki lokið. Flokkakerfið sé sérstaklega í „rosalegri deiglu“.
Í síðustu kosningum buðu 15 flokkar fram til Alþingis á landsvísu, margir þeirra með áherslur sem eru vinstra megin við miðju samkvæmt hinu hefðbundna pólitíska litrofi. Katrín segist telja að það sé hægt að vinna miklu meira saman á vinstri væng stjórnmálanna. „Ég sé ekki endilega fyrir mér flokkasameiningar[...]En ég held að það geti alveg orðið frekari breytingar.“ Þar á hún meðal annars við frekara samstarf um málefni þvert á flokka. Margir innan vinstri flokka, til dæmis Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, geti unnið vel saman.
Mikil munur á pólitík fyrir og eftir hrun
Katrín sagði að tvenns konar kröfur væru uppi gagnvart íslenskum stjórnmálum. Annars vegar krafa um að vinna hluti saman, til dæmis innan stjórnarandstöðunnar. Því tengt segist hún vera fylgjandi því, og hafi alltaf verið, að framboð gefi upp fyrir kosningar með hverjum þeir ætli að vinna í ríkisstjórn fái þau tækifæri til þess að mynda slíka. Hins vegar er krafa uppi um að stjórnmálamenn tali með skýrari hætti um hvað þeir standi fyrir.
Hún segist verulega ósátt við margt sem núverandi ríkisstjórn stendur fyrir.„Það er skýr hugmyndafræðilegur munur, finnst mér.“ Munurinn á pólitíkinni fyrir og eftir hrun sést meðal annars á þeim miklu erfiðleikum fyrir ríkisstjórnir að ná saman um stór mál. Þeir erfiðleikar séu nú mun meira uppi á yfirborðinu en þeir voru áður, bæði hjá síðustu ríkisstjórn og þeirri sem nú situr.
Jesús Kristur var vinstri maður
Stór hluti viðtalsins fór í að ræða allt aðra hluti en beina pólitík, þótt snertifletirnir væru alltaf skammt undan. Katrín greindi meðal annars frá því að hún væri ekki fermd en trúi því alveg að Jesús Kristur hafi verið til í einhverri myndi. Hún hafi alltaf litið á hann sem vinstri mann, einhvern sem passaði upp á fátæka fólkið. Aðspurð um helstu pólitisku fyrirmyndir sínar nefndi Katrín Kolbrúnu Halldórsdóttur, sem hafi verið afar ófeimin við að taka á erfiðum málum, og Vigdísi Finnbogadóttur.