Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV að hún myndi greiða atkvæði með tillögu meirihluta kjörbréfanefndar, sem felur í sér að öll kjörbréf verði staðfest. Atkvæðagreiðsla um hefst á Alþingi kl. 20 í kvöld.
Katrín styður þannig ekki tillögu fulltrúa Vinstri grænna í kjörbréfanefndinni, Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Sú tillaga felur í sér að einungis 47 kjörbréf verði staðfest og gripið verði til uppkosningar í Norðvesturkjördæmi.
„Það liggur auðvitað fyrir að þetta er ekki einfalt úrlausnarefni sem blasir við Alþingi,“ sagði Katrín við RÚV í kvöld og bætti svo hún að annmarkarnir á framkvæmd kosninga í NV-kjördæmi hefðu ekki verið nægilegir til að ógilda kosninguna sem fram fór 25. september.
„Ég mun greiða atkvæði með því að staðfesta öll kjörbréf og ég geri það því ég tel að það þurfi að leiða mjög sterkar líkur að því að þetta hafi haft áhrif á niðurstöður kosninga,“ sagði Katrín.
Hún sagðist hafa vonir um það að þegar niðurstaða þessa máls lægi fyrir yrði mjög fljótlega hægt að kynna áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf Vinstri grænna við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk.