Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks og fjármála- og efnahagsráðherra, segir að ekki standi til að hækka fjármagnstekjuskatta. Það sé ekki gert ráð fyrir skattahækkunum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í svari Bjarna við fyrirspurn ViðskiptaMoggans, fylgiblaðs Morgunblaðsins um efnahagsmál og viðskipti, sem greint er frá í dag.
Þar er Bjarni að bregðast við orðum Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna og forsætisráðherra, sem sagði í ræðu á flokksráðsfundi flokks síns á Ísafirði á laugardag að Vinstri græn myndu halda áfram að vinna að réttlátara skattkerfi á Íslandi. „Nú er kominn tími til að breyta skattlagningu þeirra sem fyrst og fremst hafa fjármagnstekjur og tryggja að þau greiði sanngjarnan hlut í útsvar til sveitarfélaganna til að fjármagna þau mikilvægu verkefni sem þau sinna ekki síst í félags- og velferðarþjónustu. Um það hefur verið talað í tuttugu ár en nú er kominn tími aðgerða.“
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 30. nóvember 2021 sagði að regluverk í kringum tekjutilflutning yrði „tekið til endurskoðunar til að tryggja að þau sem hafa eingöngu fjármagnstekjur reikni sér endurgjald og greiði þannig útsvar.“
Efsta tíundin tekur til sín 81 prósent fjármagnstekna
Fjármagnstekjur eru þær tekjur sem einstaklingar hafa af eignum sínum. Þær eru til að mynda vextir, arður, söluhagnaður eða leigutekjur af lausafé og af útleigu á fasteignum. Þeir sem fá mestar fjármagnstekjur á Íslandi eru því sá hópur einstaklinga sem á flest hlutabréf og flestar fasteignir. Sá hópur sem hefur sankað að sér flestum eignum.
Alls höfðu einstaklingar 181 milljarð króna í fjármagnstekjur í fyrra og því liggur fyrir að efsta tíundin, sem telur nokkur þúsund fjölskyldur, var með tæplega 147 milljarða króna í fjármagnstekjur á síðasta ári. Heildarfjármagnstekjur einstaklinga hækkuðu um 57 prósent milli ára, eða alls um 65 milljarða króna. Mest hækkaði söluhagnaður hlutabréfa sem var 69,5 milljarðar króna á árinu 2021.
Ráðstöfunartekjur fjármagnseigenda hækkuðu mest
Hjá þeim heimilum í landinu sem höfðu hæstar tekjur hækkuðu ráðstöfunartekjur að meðaltali um ríflega tíu prósent, að langmestu leyti vegna aukinna fjármagnstekja.
Þetta þýðir að ráðstöfunartekjur efsta tekjuhópsins hækkuðu mun meira hlutfallslega en annarra tekjuhópa ofan á það að tekjur þess hóps voru meiri fyrir. Krónunum í vasa þeirra sem höfðu miklar fjármagnstekjur fjölgaði því umtalsvert meira en í vasa þeirra sem þáðu fyrst og síðast launatekjur á síðasta ári.
Skattbyrði efsta tekjuhópsins dróst saman
Fjármagnstekjur dreifast mun ójafnar en launatekjur. Þær lendi mun frekar hjá tekjuhæstu hópum landsins, sem eiga mestar eignir.
Alls um níu prósent þeirra sem telja fram skattgreiðslur á Íslandi fá yfir höfuð fjármagnstekjur. Fjármagnstekjuskattur er líka 22 prósent, sem er mun lægra hlutfall en greitt er af t.d. launatekjum, þar sem skatthlutfallið er frá 31,45 til 46,25 prósent eftir því hversu háar tekjurnar eru.
Í nýlegu Mánaðaryfirliti ASÍ kom fram að skattbyrði hafi heilt yfir aukist í fyrra þegar hún er reiknuð sem hlutfall tekju- og fjármagnstekjuskatts af heildartekjum. Hún fór úr 22,4 prósent af heildartekjum í 23,4 prósent.
Skattbyrði efstu tíundarinnar dróst hins vegar saman. Árið 2020 borgaði þessi hópur 28,9 prósent af tekjum sínum í skatta en 27,3 prósent í fyrra. Skattbyrði allra annarra hópa, hinna 90 prósent heimila í landinu, jókst á sama tíma.
Í minnisblaði um áðurnefnda greiningu sem lagt var fyrir ríkisstjórn í síðasta mánuði var þetta staðfest. Þar kom fram að hækkandi skattgreiðslur efstu tekjutíundarinnar séu fyrst og síðast tilkomnar vegna þess að fjármagnstekjur þeirra hafa stóraukist, enda greiðir þessi hópur 87 prósent af öllum fjármagnstekjuskatti.
Mestar á Nesinu og í Garðabæ
Meðaltalsfjármagnstekjur íbúa á Seltjarnarnesi og í Garðabæ voru umtalsvert hærri á síðasta ári en í öðrum stærri sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Á Seltjarnarnesi voru þær 1.585 þúsund krónur á hvern íbúa í fyrra en 1.556 þúsund krónur í Garðabæ. Á sama tíma voru þær 679 þúsund krónur á hvern íbúa Reykjavíkur, 746 þúsund krónur á íbúa í Kópavogi, 554 þúsund krónur á íbúa í Mosfellsbæ og 525 þúsund krónur í Hafnarfirði.
Alls var meðaltal fjármagnstekna á landinu 709 þúsund krónur og því voru meðalfjármagnstekjur á íbúa á Seltjarnarnesi tæplega 124 prósent hærri en hjá meðal Íslendingnum og næstum 130 prósent hærri en hjá íbúum Reykjavíkur, Þess sveitarfélags sem liggur að Nesinu.
Þetta kemur fram í nýlegum tölum frá Hagstofu Íslands.