Fyrirtækið Ísey útflutningur ehf., sem er systurfélag Mjólkursamsölunnar, hefur rift leyfissamningi sínum við rússneska félagið IcePro, sem verið hefur í hlutaeigu Kaupfélags Skagfirðinga, um framleiðslu og dreifingu á skyri undir merkjum ISEY-skyr fyrir Rússlandsmarkað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækjunum í dag.
Þar segir að Ísey útflutningur ehf. hafi haft leyfissamninginn til skoðunar undanfarnar vikur vegna stríðsreksturs Rússlands í Úkraínu og að honum hafi nú verið rift og búið sé að tilkynna ákvörðunina til forráðamanna IcePro í Rússlandi. Samhliða þessari ákvörðun hafi Kaupfélag Skagfirðinga dregið sig út úr eignarhaldi á félaginu IcePro.
Fá svör fengust í mars
Kjarninn spurði Sigurjón R. Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóra hjá KS að því, þann 18. mars síðastliðinn, hvort það hefði verið „til einhverrar skoðunar hjá KS að hætta skyrframleiðslu og sölu í Rússlandi í ljósi framgöngu Rússa í Úkraínu?“ en engin svör bárust við þeirri skriflegu fyrirspurn.
Nokkrum dögum fyrr hafði Sigurjón sagt blaðamanni í skriflegu svari að stríðsrekstur Rússa hefði ekki haft nein áhrif á skyrframleiðslu og sölu í Rússlandi og erfitt væri að sjá fyrir hvernig það þróaðist.
Kjarninn beindi einnig skriflegri fyrirspurn til MS þann 7. mars síðastliðinn, á almennt netfang fyrirtækisins, um hvort ljóst væri á þeirri stundu hvort hernaður Rússlands í Úkraínu kæmi „ti með að hafa einhver áhrif á sérleyfissamning Mjólkursamsölunnar um framleiðslu og markaðssetningu IcePro og Lactika JSC á Ísey skyri á rússneskum neytendamarkaði“. Ekkert svar barst heldur við þeirri fyrirspurn.
Engin riftunarákvæði sögð til staðar í gær
Í gær var hins vegar fjallað um málið í Fréttablaðinu og þar meðal annars haft eftir Einari Einarssyni, rekstarstjóra Íseyjar hjá MS, að ekki væri búið að taka neina ákvörðun um þessi mál og að það væru hreinlega „engin riftunarákvæði“ sem hægt væri að grípa til „vegna þess ástands sem er“.
En nú er ljóst að framleiðslu á skyri undir merkjum Íseyjar í Rússlandi verður hætt.
Tekið er fram í tilkynningunni um málið að í ljósi umræðna um sölu á Ísey skyri í Rússlandi sé vert að taka fram að aldrei hefur verið flutt út skyr frá Íslandi til Rússlands.
„Árið 2018 hóf framangreint rússneskt félag, í eigu þarlendra aðila og áður Kaupfélags Skagfirðinga, framleiðslu og dreifingu á Ísey skyri í Rússlandi samkvæmt umræddum leyfissamningi sem nú hefur verið rift,“ segir í tilkynningunni.