Hlutabréfaverð allra Kauphallarfélaganna, fyrir utan fasteignafélaganna Reita og Eikar, lækkaði á fyrsta klukkutímanum eftir að hlutabréfamarkaðurinn opnaðist hér á landi í morgun. Virði Icelandair hefur lækkað mest, en bréf í félaginu hafa hrunið um rúmlega fimm prósent.
Sama þróun hefur átt sér stað á hlutabréfamörkuðum í Evrópu og Asíu. Samkvæmt frétt Financial Times eru fjárfestar farnir að óttast hugsanlega innrás Rússa í Úkraínu, eftir að Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, lýsti því yfir að hann ætlaði til Moskvu til að biðja Vladímir Pútín Rússlandsforseta að ráðast ekki inn í landið.
Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, ræddi einnig við ríkisstjórn Úkraínu í gærkvöldi, en þar sagði hann að stjórnvöld í Washington myndu bregðast „fljótt og harkalega“ við hvers kyns hernaðaraðgerðum Rússa.
Samhliða aukinni hættu á innrás heldur orkuverð á heimsvísu áfram að hækka. Hráolíuverð hefur hækkað um 1,8 prósent í dag, en samkvæmt Financial Times hefur það ekki verið hærra síðan í september árið 2014. Verð á jarðgasi í Evrópu tók enn hærra stökk á sama tíma, en það er nú 12 prósentum hærra.
Mikil verðlækkun átti sér einnig stað á Wall Street hlutabréfamarkaðnum í New York síðasta föstudag vegna ótta við innrás í Úkraínu. Þar lækkaði hlutabréfavísitalan S&P 500 um tæp tvö prósent. en Nasdaq-vísitalan, sem inniheldur fleiri tæknifyrirtæki, lækkaði um tæp þrjú prósent.
Líkt og Kjarninn fjallaði um í gær um hafa tæknifyrirtæki og önnur fyrirtæki sem hækkuðu skarpt í kjölfar faraldursins þurft að þola miklar verðlækkanir á hlutabréfamörkuðum á síðustu vikum. Sum þeirra hafa lent í lausafjárvanda vegna ástandsins, þar sem erfitt hefur reynst að fjármagna sig með nýju hlutafé.