Vegna mikillar útbreiðslu smita í samfélaginu þessa stundina og þess mikla fjölda sem þarf að fara í sóttkví á hverjum degi er það til skoðunar að stytta sóttkví hjá þríbólusettum einstaklingum. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í morgun. Útfærslan verður kynnt á næstu dögum.
Sóttkví, það er þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af COVID-19 en er ekki með einkenni, er fimm dagar frá útsetningardegi og lýkur þegar viðkomandi fær neikvætt PCR-próf. Sytting á sóttkví þríbólusettra gæti verið upphafið að ýmsum tilslökunum í sóttvarnatilliti að mati Þórólfs, en með styttingunni er einnig verið að koma til móts við atvinnulífið.
Yfir 16 þúsund í einangrun eða sóttkví
1.238 smit greindust í gær, þar af voru 1.074 smit innanlands og 164 á landamærunum. Nýgengi innanlandssmita er nú 3.037,4 og hefur aldrei verið hærra. 7.525 eru í sóttkví og 9.125 í einangrun.
30 sjúklingar liggja á Landspítala með COVID-19 og er meðalaldur þeirra 56 ár. Átta eru á gjörgæslu, fimm þeirra í öndunarvél. Sex af átta sem eru á gjörgæslu eru óbólusett. Karlmaður á sjötugsaldri lést af völdum COVID-19 á Landspítala í gær. Hann var óbólusettur. Alls hafa 39 látið lífið af völdum COVID-19 frá því að faraldurinn braust út í febrúar 2020.
Börn aðeins bólusett ef báðir forsjáraðilar eru samþykkir
Þórólfur segir óljóst hvort toppnum í smitum sé náð og næstu dagar munu skera úr um það. Sem stendur er ómíkron-afbrigðið algengara hjá yngri fullorðnum en delta-afbrigðið hjá börnum.
Bólusetning barna 5-11 ára hefst í næstu viku og munu foreldrar eða forsvarsmenn barna fá senda tilkynningu í lok vikunnar um að börnum á þessum aldri standi bólusetning til boða. Fram kom í máli Kamillu Sigríðar Jósefsdóttur, læknis og verkefnastjóra hjá embætti landlæknis, að svara verði tilkynningunni svo barn verði bólusett. Ef forsvarsmenn eru tveir og með mismunandi afstöðu verður barn ekki bólusett.
Þórólfur hvetur fólk til að mæta í bólusetningar og hvetur fólk sérstaklega til að þiggja örvunarskammtinn. Þá hvetur hann foreldra til að þiggja bólusetningu fyrir börn sín.
„Við þurfum áfram að berjast gegn COVID-19 til að vernda líf og heilsu landsmanna en hversu lengi sú barátta mun standa er ekki gott að segja til um á þessari stundu,“ sagði Þórolfur. Hann segist þó sannfærður um að á næstu vikum og mánuðum takist að mynda samfélagslegt ónæmi svo hægt verði að snúa aftur til fyrra lífs. Það sé hins vegar óljóst hvort það marki endalok faraldursins.