Félagið Hveraberg ehf. er kaupandi jarðarinnar Heiði í Skaftárhreppi þar sem Fjaðrárgljúfur er að finna. Brynjólfur Baldursson er framkvæmdastjóri félagsins og skrifaði undir kauptilboðið fyrir hönd þess. Íslenska ríkið hafði forkaupsrétt á Heiði en nýtti hann ekki. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Hveraberg ætla samkvæmt samkomulagi að vinna að friðlýsingu svæðisins „enda telja aðilar hagsmunum gljúfursins best borgið með friðlýsingu,“ sagði í tilkynningu frá ráðuneytinu í morgun.
Kjarninn óskaði eftir því við ráðuneytið að fá sendar upplýsingar um kaupandann og samkomulagið sem gert var við hann. Við þeirri beiðni varð ráðuneytið og samkvæmt kauptilboði sem er meðal gagna greiddi Hveraberg ehf. 280 milljónir króna fyrir jörðina Heiði en náttúruperlan Fjaðrárgljúfur, sem er á náttúruverndarskrá, er á mörkum hennar og jarðarinnar Holts.
Félagið Hveraberg ehf. var stofnað árið 2017 og hefur verið leiðandi í uppbyggingu Gróðurhússins í Hveragerði, en í þeirri byggingu er hótel, auk mathallar og verslunarrýmis. Samkvæmt ársreikningi félagsins frá árinu 2020 er Brynjólfur Baldursson eini eigandi félagsins í gegnum félag sitt Eldborg Capital ehf. Brynjólfur á einnig hlut í Reykjadalsfélaginu sem hefur unnið að uppbyggingu ferðaþjónustu við rætur gönguleiðarinnar upp í Reykjadal ofan Hveragerðis. Brynjólfur var á árum áður í fjármálageiranum og tók þátt í að stofna Alfa verðbréf, sem MP banki keypti árið 2011. Brynjólfur varð í kjölfarið framkvæmdastjóri eignastýringar hjá MP Banka, sem nú heitir Kvika banki.
Eigendur jarðarinnar Heiði voru samkvæmt kauptilboðinu sex talsins og áttu fimm þeirra jafnan hlut, 13,3 prósent. Þorbjörn Bjarnason átti svo stærstan hlut, 33,32 prósent. Samkvæmt tilboðinu átti að greiða kaupverðið út með peningum við undirritun kaupsamnings og nýju láni frá lánastofnun gegn skilyrtu veðleyfi sem greiða á að þinglýsingu lokinni. Kauptilboðið var undirritað 10. mars.
Í apríl barst ráðuneytinu erindi þar sem óskað var afstöðu ríkissjóðs til nýtingar forkaupsréttar vegna sölunnar á jörðinni. Samkvæmt lögum um náttúruvernd hefur ríkissjóður forkaupsrétt að jörðum og öðrum landareignum sem eru að hluta eða öllu leyti á náttúruminjaskrá.
Er það mat ráðuneytisins að verndarþörf á svæðinu sé talsverð vegna mikils ágangs ferðamanna en hægt sé að ná markmiðum verndar án þess að ríkið gangi inn í kaupin, sagði í tilkynningu ráðuneytisins í morgun. „Með friðlýsingu svæðisins og samkomulagi við nýjan eiganda verður vernd svæðisins og nauðsynleg uppbygging sameiginlegt verkefni ríkisins og nýs eiganda.“
Samkvæmt samkomulaginu skuldbindur nýr eigandi jarðarinnar sig til að vinna „í fullu samstarfi við Umhverfisstofnun að friðlýsingu Fjaðrárgjúfurs sem náttúruvætti, samkvæmt ákvæðum laga um náttúruvernd“.
„Hófleg“ gjöld
Hveraberg áformar að taka „hófleg bílastæðagjöld til að byggja upp þjónustu“ á svæðinu en samkvæmt samkomulaginu við ráðuneytið skulu gjöldin ekki verða til þess að skerða eða tálma frjálsa för einstaklinga, sem ekki nýta bílastæðið um hið friðlýsta svæði, eða grannsvæði þess samkvæmt reglum náttúruverndarlaga um almannarétt.
Innheimta og ráðstöfun gjalda sem tekin kunna að verða vegna lagningu vélknúinna farartækja skal alfarið renna til uppbyggingar þjónustu, reksturs og innviða fyrir þá sem ferðast um svæðið.
Félagið ætlar að reisa þjónustumiðstöð á jörðinni, þar sem gestum verður veitt grunnþjónusta í formi m.a. veitinga, salernis og verslana.
Eigendur annarra jarða sem Fjaðrárgljúfur er hluti af hafa einnig lýst sig viljuga til að vinna að friðlýsingu gljúfursins.
Ríkið heldur forkaupsrétti
„Það er ánægjulegt að samkomulag hafi náðst við kaupanda Fjaðrárgljúfurs um vernd svæðisins og eðlilegt að ríkið og eigendur standi saman að uppbyggingu þessarar náttúruperlu sem ferðamenn njóta þess að heimsækja,“ var haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í tilkynningunni.
Forkaupsréttur ríkisins hvílir áfram á jörðinni komi hún aftur til eigendaskipta.
Fjaðrárgljúfur er stórbrotið og hrikalegt, um 100 metra djúpt og um tveir kílómetrar að lengd, segir í upplýsingum um þetta náttúrufyrirbæri á vef jarðvangsins Kötlu. Gljúfrið er veggbratt, örlítið hlykkjótt og þröngt. Berggrunnurinn í Fjaðrárgljúfri er að mestu móberg frá kuldaskeiðum ísaldar og telst um tveggja milljóna ára gamalt. Fjaðrá á upptök sín í Geirlandshrauni og fellur fram af heiðarbrúninni í þessu mikilfenglega gljúfri þar til hún skilar sér niður í Skaftá. Fjaðrá er bergvatnsá og ljóst er að hún hefur breyst mikið í tímans rás. Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá.