Taívan mun ekki koma af stað átökum við Kínverja en mun engu að síður verja fullveldi sitt og þjóðaröryggi. Þetta segir forseti landsins Tsai Ing-wen í myndbandsávarpi til þjóðar sinnar, en greint er frá þessu í frétt Reuters.
Myndbandsávarp forsetans kemur í kjölfar stærstu heræfingar Kínverja sem nú fer fram víða á hafsvæðinu í kringum Taívan, meðal annars á Taívan-sundi sem liggur á milli Taívan og Kína. Ráðgert er að hernaðaræfingin standi yfir fram á sunnudag.
Fram kemur í umfjöllun Reuters að yfir 100 flugvélar kínverska hersins taki þátt í heræfingunni sem mun standa fram á sunnudag, þar á meðal orustuþotur og sprengjuflugvélar. Þar að auki taka á annan tug herskipa þátt í æfingunni. Kínverski herinn hefur meðal annars skotið flugskeytum á loft á heræfingunni.
Herskip og flugvélar á vegum kínverska hersins hafa í dag farið yfir hina svokölluðu miðlínu sem liggur mitt á milli Kína og Taívans á Taívan-sundi og sendi Taívanski herinn herþotur til móts við flugvélar kínverska hersins. Þá hafa Taívanar virkjað sérstök viðvörunarkerfi gegn skotflaugum til þess að fylgjast með flugi kínverska hersins undan ströndum landsins.
Embættismenn í Taívan segja að æfingin brjóti í bága við samþykktir Sameinuðu þjóðanna þar sem hernaðarbrölt Kínverja hafi átt sér stað innan yfirráðasvæðis Taívans og ógnað öryggi bæði í lofti og á hafi.
Hafa eldað grátt silfur saman frá miðri síðustu öld
Sjálfsstjórn hefur verið á Taívan allt frá árinu 1949 er kommúnistar undir stjórni Mao Zedong náðu völdum í Beijing og stofnuðu Alþýðulýðveldið Kína. Í kjölfarið flúðu andstæðingar Mao formanns, stuðningsmenn Chiang Kaishek og Guomindang-flokksins, til Taívan.
Fram kemur í svari á Vísindavefnum sem fjallar um Kína og sjálfstjórnarhéruð þess að spenna hafi ríkt í samskiptum Kína og Taívan allt frá árinu 1949. Sú spenna er ekki síst tilkomin vegna þess að stjórnvöld beggja vegna miðlínunnar svokölluðu gera tilkall til meginlandsins.
„Eins eru flestir meðvitaðir um spennuna milli Kína og Taívan sem haldist hefur síðan kommúnistar náðu völdum 1949 í Kína og fyrri stjórnvöld flúðu til Taívaneyju. Færri vita kannski að stjórnir beggja aðila eru sammála um að Taívan sé sýsla í hinu stóra Kína. Ágreiningurinn snýst í raun um hvor stjórnin eigi rétt á að ráða yfir Kína sem heild,“ segir á Vísindavefnum.
Kínverjar ósáttir við heimsókn Nanncy Pelosi
Hernaðaræfingin kemur í kjölfar opinberrar heimsóknar Nancy Pelosi, forseta bandarísku fulltrúadeildarinnar, til Taívan. Pelosi er hæstsetti embættismaðurinn innan bandaríska stjórnkerfisins til þess að heimsækja Taívan í aldarfjórðung.
Kínverjum hugnaðist ekki heimsókn Pelosi og utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, sagði að heimsókn hennar væri „óðsleg, óábyrg og óskynsamleg,“ að því er fram kemur í umfjöllun Reuters.
Í stuttri heimsókn sinni sagði Pelosi að Bandaríkjamenn stæðu með Taívönum og að reiði Kínverja kæmi ekki í veg fyrir að stjórnmálaleiðtogar heimsæktu landið.
Haft er eftir John Kirby, talsmanni bandaríska varnarmálaráðuneytisins að bandarísk yfirvöld fylgist náið með stöðunni í frétt the Guardian. „Þetta er áhyggjuefni. Þetta er ekki bara áhyggjuefni fyrir okkur heldur er þetta að sjálfsögðu áhyggjuefni fyrir íbúa Taívan. Þetta er líka áhyggjuefni fyrir bandamenn okkar á svæðinu, sérstaklega Japani,“ sagði Kirby í viðtali við MSNBC í dag en í það minnsta fimm flugskeyti kínverska hersins hafa lent innan japanskrar lögsögu.
Kirby var spurður um það orsök hernaðaræfingarinnar megi rekja til heimsóknar Pelosi til Taívan. „Kínverjar bera ábyrgð á þessari stöðu,“ sagði Kirby. „Þeir hefðu ekki þurft að bregðast með þessum hætti við eðlilegum ferðalögum stjórnmálamanna til Taívan. Kínverjar bera ábyrgð á því að spennan hefur stigmagnast.“
Ráðamenn vilja að allt fari friðsamlega fram
Ráðamenn víða að hafa brugðist við heræfingum Kínverja á hafsvæðinu í grennd Taívans. Haft er eftir Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins í frétt Reuters að Kínverjar ættu ekki að gera of mikið úr heimsókn Nancy Pelosi til Taívan. Heimsóknin kallaði alls ekki á ógnandi tilburði af hálfu Kínverja.
Utanríkisráðherrar G7 ríkjanna sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem kínversk yfirvöld voru hvött til þess að lægja öldurnar á Taívan-sundi. Hætta væri á að hernaðaræfingar Kínverja á svæðinu hefðu í för með sér aukna spennu og óstöðugleika á svæðinu. Í hópi G7 ríkja eru Bandaríkin, Kanada, Bretland Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Japan.
Kínverskir ráðamenn brugðust ókvæða við yfirlýsingu G7 ríkjanna og hefur utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, aflýst fundi sínum með Yoshimasa Hayashi, utanríkisráðherra Japans, en til stóð að þeir myndu ræða saman á hliðarfundi við formlega dagskrá fundar ASEAN, samtaka ríkja í Suðaustur-Asíu, sem nú stendur yfir í Kambódíu.
Fundur 27 utanríkisráðherra AESAN ríkjanna hefur litast talsvert af þróuninni í grennd við Taívan. „ASEAN er reiðubúið til þess að taka að sér það verkefni að koma á friðsamlegum samræðum milli allra hlutaðeigandi aðila,“ segir í yfirlýsingu sem samtökin hafa sent frá sér.