Eins og fram hefur komið má rekja tilurð skoðunar Persónuverndar á samskiptum Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, og Gísla Freys Valdórssonar, þáverandi aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, til fréttar sem birtist í DV 18. nóvember síðastliðinn þar sem greint var frá samskiptum tvímenninganna við árdaga lekamálsins svokallaða.
Í fréttinni var greint frá því að Sigríður Björk og Gísli Freyr hefðu talað tvívegis saman í síma, daginn sem fyrstu fréttirnar um hælisleitandann Tony Omos birtust í fjölmiðlum. Þá hefur Sigríður Björk viðurkennt að hafa sent Gísla Frey greinargerð um Tony Omos í tölvupósti, síðar þennan sama dag.
Samkvæmt úrskurði Persónuverndar innihélt skjalið sem Sigríður Björk sendi Gísla Frey, upplýsingar um rannsókn á sakamáli þar sem Tony Omos hafði stöðu grunaðs manns. Þá hafði skjalið að geym upplýsingar um tengsl hans við aðra einstaklinga sem þar eru nafngreindir, þar á meðal Evelyn Glory Joseph. Um var að ræða drög að skýrslu sem unnin er samkvæmt lögum um meðferð sakamála, en í slíkri skýrslu er getið einstakra rannsóknaraðgerða og niðurstöðu þeirra. Skjalið sem Sigríður Björk sendi Gísla Frey var ódagsett og óundirritað.
Samskipti um tölvupóstsamskipti
Persónuvernd óskaði eftir tölvupóstsamskiptum Gísla Freys og Sigríðar Bjarkar. Gísli Freyr svaraði því til að hann hefði þau ekki undir höndum. Sigríður Björk svaraði með bréfi þann 30. janúar síðastliðinn. Með því bréfi fylgdu upplýsingar um samskipti innanhúss hjá lögreglunni á Suðurnesjum varðandi skýrsludrögin um Tony Omos og tölvupóstsamskiptin við Gísla Freyr.
Í niðurstöðu Persónuverndar segir hins vegar að þar hafi verið um að ræða „útprentun af tölvubréfi lögreglustjóra til hans frá 20. nóvember 2013, auðkenndu sem „Trúnaðarmál“ í efnislínu en með svohljóðandi texta í meginmáli: „Sent skv. umtali. Hefur ekki verið sýnt öðrum í þessu formi.“ Sama dag og þessi gögn bárust sendi fyrrum lögreglustjóri á Suðurnesjum Persónuvernd tölvubréf sem hafði að geyma skjámynd af tengiliðaupplýsingum fyrir umræddan aðstoðarmann, þar á meðal. netfang, en af skjámyndinni má sjá að þessar tengiliðaupplýsingar birtast í samhengi við fyrrgreint tölvubréf til aðstoðarmannsins. Í tölvubréfinu sjálfu birtist ekki sjálft netfangið heldur aðeins nafn hans, en í tengiliðaupplýsingunum kemur fram að tölvubréfið hafi verið sent á vinnunetfang hans hjá innanríkisráðuneytinu.“
Ekki vistað í málaskrá
Samskipti Sigríðar Bjarkar við Gísla Frey voru ekki vistuð í málaskráarkerfi lögregunnar á Suðurnesjum. Þetta kom fram í bréfi frá lögreglunni þann 22. desember 2014. Þar segir einnig að „umræddum skýrsludrögum hafi verið miðlað frá Lögreglunni á Suðurnesjum til aðstoðarmannsins eftir að skjali um tilgreindan hælisleitanda hafði verið miðlað til fjölmiðla án fullnægjandi heimildar. Sé því ljóst að upplýsingar í því skjali hafi ekki verið sótar úr skýrsludrögunum.“
„Fyrir liggur að Lögreglan á Suðurnesjum skráði ekki umrædda miðlun skýrsludraga til innanríkisráðuneytisins í málaskrárkerfi sitt. Þá liggur fyrir að ráðuneytið skráði ekki í málaskrá að því hefði borist þessi skýrsludrög, né heldur að því hefði borist fyrrnefnd framburðarskýrsla frá Útlendingastofnun.“
Skýrsludrögin ekki í málaskrá ráðuneytis
Skýrsludrögin voru ekki á meðal þeirra gagna í mál sem var til meðferðar í innanríkisráðuneytinu um Tony Omos. „Þegar af þeirri ástæðu getur umrædd miðlun skýrsludraganna frá Lögregunni á Suðurnesjum til ráðuneytisins ekki fallið undir fyrrgreindar heimildir til vinnslu persónuupplýsinga í ljósi þess að nauðsyn hagi staðið til hennar í þágu stjórnsýslumáls. Þá liggur ekki fyrir að hún falli undir vinnsluheimildir á öðrum.
Í úrskurðarorði segir:
Miðlun Lögreglunnar á Suðurnesjum á skýrsludrögum með persónuupplýsingum um Tony Omos, Evelyn Glory Joseph og fleiri einstaklinga til innanríkisráðuneytisins hinn 20. nóvember 2013, sem og beiðni ráðuneytisins þar að lútandi, studdist ekki við viðhlítandi heimild.
Skortur á skráningu um miðlun draganna í málaskrá lögreglunnar á Suðurnesjum, sem og um öflun þeirra í málaskrá innanríkisráðuneytisins, fór í bága við kröfum um upplýsingaöryggi. Hið sama gildir um skort á skráningu um mótttöku ráðuneytisins hinn 20. nóvember 2013 á framburðarskýrslu Tony Omos frá Útlendingastofnun.
Ekki var gætt viðunandi öryggis við miðlun fyrrnefndra skýrsludraga til ráðuneytisins frá Lögreglunni á Suðurnesjum og fyrrnefndrar framburðarskýrslu frá Útlendingastofnun til ráðuneytisins.
Í samtali við Kjarnann segir Sigríður Björk að viðbragða sé að vænta frá henni vegna úrskurðar Persónuverndar.