Kjarninn hefur verið tilnefndur til hinna alþjóðlegu WSA-mobile (World Summit Awards) verðlauna Sameinuðu þjóðanna í flokknum m-Media&news, eða í stafrænna miðla og frétta. Alls eru 454 verkefni tilnefnd í átta flokkum. Kjarninn er eitt af tveimur íslenskum fyrirtækjum sem hlaut tilnefningu. Hitt er Locatify,sem er tilnefnt í flokknum m-Tourism&Culture, eða stafrænnar ferðaþjónustu og menningar. Hægt er að lesa allt um Locatify hér. Tilkynnt var um tilnefningarnar í gær.
Í flokknum sem Kjarninn er tilnefndur til verðlauna í eru alls 45 verkefni tilnefnd. Hægt er að sjá lista yfir tilnefnd verkefni hér. Í september verður tilkynnt um 40 sigurvegara, fimm í hverjum flokki. Þeir munu fá tækifæri til að fara á hina alþjóðlegu ráðstefnu WSA Global Congress sem haldin verður í Abu Dhabi í byrjun febrúar 2015 til að kynna verkefnin sín fyrir alþjóðlegum hópi sérfræðinga. Sá hópur mun auk þess velja eitt verkefni úr hverjum flokki til að hljóta titillinn WSA-mobile Global Champion.
World Summit Awards er samkeppni Sameinuðu þjóðanna um bestu stafrænu lausnirnar. Tölvuleikur CCP, EVE Online, vann til verðlauna í samkeppninni í fyrra þegar hann varð í fyrsta sæti í flokki afþreyingar og leikja. Ráðstefnan var þá haldin í Sri Lanka. Hægt er að lesa frétt RÚV um sigur CCP hér.
Hægt er að lesa allt um verðlaunin og tilnefningarnar hér.