Kjósendur Samfylkingarinnar voru þeir kjósendur sem voru minnst ánægðir með frammistöðu formanns þess flokks sem þeir studdu í síðustu kosningabaráttu. Alls sögðust 53,5 prósent þeirra að þeim hafi þótt Logi Einarsson standa sig vel samkvæmt nýlegri könnun Maskínu, en Samfylkingin tapaði 2,2 prósentustigum af fylgi milli kosninga og fékk 9,9 prósent atkvæða. Það skilaði flokknum sex þingmönnum, eða einum færri en hann fékk í kosningunum 2017.
Sá sem naut næst minnstrar hylli hjá eigin kjósendum var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Alls sögðust 65,1 prósent kjósenda þess flokks að þeir hefðu verið ánægðir með frammistöðu hans í aðdraganda kosninga. Miðflokkurinn beið afhroð í þeim og fékk 5,4 prósent atkvæða, sem er tæpur helmingur þess sem flokkurinn fékk árið 2017. Alls náðu þrír þingmenn kjöri, en einn þeirra, Birgir Þórarinsson, skipti yfir í Sjálfstæðisflokkinn tveimur vikum eftir kosningarnar og sagði forystu flokksins hafa unnið markvisst gegn sér.
Sjö af hverjum tíu ánægðir með Halldóru og Þorgerði
Píratar eru ekki með eiginlegan formann, en Halldóru Mogensen var falið það hlutverk að leiða viðræður um stjórnarmyndun eftir kosningar ef Píratar kæmust í stöðu til að taka þátt slíkum viðræðum. Hún kom einnig fram fyrir hönd flokksins í flestum þáttum sem formenn annarra flokka komu fram. Alls sögðust 69,7 prósent kjósenda Pírata hafa verið ánægðir með frammistöðu Halldóru í baráttunni þrátt fyrir að Píratar hafi tapað smávægilegu fylgi, fengið 8,6 prósent atkvæða og sama fjölda þingmanna og þeir fengu kjörna í kosningunum á undan, eða sex alls.
Alls sögðust 71,7 prósent kjósenda Viðreisnar að þeir væru ánægðir með frammistöðu flokksformannsins, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, í baráttunni.
Þrír formenn geta verið nokkuð sáttir
Bjarni Benediktsson leiðir stærsta flokk landsins, Sjálfstæðisflokkinn. Hann tapaði 0,9 prósentustigum milli kosninga og fékk 24,4 prósent atkvæða, sem er það næst minnsta sem hann hefur fengið í þingkosningum frá upphafi. Þingmannafjöldinn hélst hins vegar óbreyttur, og er áfram 16.
Frammistaða Bjarna í kosningabaráttunni virðist hafa almennt mælst vel fyrir hjá kjósendum flokks hans og 83 prósent þeirra sögðust hann hafa staðið sig vel.
Þótt Sósíalistaflokkur Íslands hafi ekki náð inn manni í kosningunum fékk hann 4,1 prósent atkvæða. Einungis Framsóknarflokkurinn bætti við sig meira fylgi. Flestir kjósendur Sósíalista, alls 87,2 prósent, voru ánægðir með frammistöðu Gunnars Smára Egilssonar, formanns framkvæmdastjórnar flokksins, í síðustu kosningabaráttu.
Kjósendur Framsóknarflokksins geta eðlilega verið sáttir með útkomu kosninganna 2021. Flokkurinn var óumdeilanlega sigurvegari þeirra, bætti við sig 9,6 prósentustigum, varð næst stærsti flokkur landsins á ný og fjölgaði þingmönnum sínum um fimm í 13. Hann var auk þess eini stjórnarflokkurinn sem tapaði ekki fylgi á síðasta kjörtímabili og styrkti stöðu sína í endurnýjuðu stjórnarsamstarfi verulega.
Það kemur því ekki á óvart að könnun Maskínu sýni að 88,6 prósent þeirra sem fannst bara best að kjósa Framsókn hafi verið ánægt með frammistöðu Sigurðar Inga Jóhannssonar í kosningabaráttunni.
Nánast algjör ánægja með frammistöðu Ingu og Katrínar
Hinn sigurvegari kosningabaráttunnar var Flokkur fólksins, sem leiddur er af Ingu Sæland. Hann bætti við sig 1,9 prósentustigum og er nú með sex þingmenn. Það er sami þingmannastyrkur og er hjá Samfylkingu og Pírötum og áhrif Flokks fólksins innan stjórnarandstöðunnar því allt önnur og meiri nú en áður.
Kjósendur flokksins voru enda afar ánægðir með frammistöðu Ingu í kosningabaráttunni en 93,3 prósent þeirra sögðu hana hafa staðið sig vel.
Þeir kjósendur sem voru ánægðastir með frammistöðu síns formanns, forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur, voru hins vegar kjósendur Vinstri grænna. Alls sögðust 96,8 prósent þeirra að fannst Katrín hafa staðið sig vel í kosningabaráttunni. Einungis Miðflokkurinn tapaði meira fylgi á milli kosninga en Vinstri græn sem fengu 12,6 prósent atkvæða og átta þingmenn kjörna, en fengu 16,9 prósent og ellefu þingmenn árið 2017.
Þegar þátttakendur í könnuninni voru spurðir heilt yfir hvaða formaður hefði staðið sig best sögðu flestir að Sigurður Ingi hefði gert það, en Katrín var ekki langt undan. Fæstum fannst Sigmundur Davíð hafa staðið sig vel og þar á eftir kom Logi Einarsson.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu. Svarendur voru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Könnunin fór fram dagana 15. til 28. desember 2021 og voru svarendur 956 talsins.