Hallgerður Gunnarsdóttir var í síðustu viku ráðin í starf lögfræðings á sviði gjafsóknarmála hjá sýslumanninum á Vesturlandi. Hallgerður sinnti starfinu áður hjá sýslumannsembættinu í Kópavogi, eða þar til starfið var flutt til innanríkisráðuneytisins í fyrra. Um áramótin færðist staðan svo til sýslumannsins á Vesturlandi sem hefur aðsetur í Stykkishólmi, þar sem eiginmaður Hallgerðar, Sturla Böðvarsson, er bæjarstjóri.
Staðan var auglýst til umsóknar þann 19. desember síðastliðinn og var umsóknarfrestur til 5. janúar. Alls sóttu 31 um starfið. Viku eftir að umsóknarfresturinn rann út, að morgni 12. janúar, var umsækjendum um starfið tilkynnt að búið væri að ráða Hallgerði, hún hafi verið eini umsækjandinn sem uppfyllti öll hæfisskilyrði. Aðeins einn umsækjandi auk Hallgerðar var boðaður í viðtal vegna starfsins.
Að minnsta kosti einn umsækjandi hefur nú óskað eftir því að fá öll gögn um ráðningarferlið, þar með talið rökstuðning, afhent frá sýslumanninum á Vesturlandi.
Var sú eina sem uppfyllti skilyrðin
„Ég veit alveg hvaða gagnrýni ég er að kalla yfir mig,“ segir Ólafur K. Ólafsson sýslumaður á Vesturlandi, spurður um ráðninguna. Hann vísar þó allri gagnrýni á bug. „Ég get ekki verið að velta fyrir mér persónulegum tengslum. Það sem skiptir mig máli er starfið sem ég er að fá, hvaða kröfur eru gerðar til starfsins og hvaða umsækjandi uppfyllir þær kröfur. Það er það sem ég horfi á. Ég get ekki verið að velta því fyrir mér hver er giftur hverjum og svo framvegis. Þá eru það ekki hæfissjónarmið sem ráða.“
Eins og áður segir var Hallgerður valin úr hópi 31 umsækjanda. „Sú sem var ráðin var eini umsækjandinn sem uppfyllti öll hæfisskilyrðin,“ segir Ólafur. Hann segir að annar umsækjandi hafi uppfyllt fáein af hæfisskilyrðunum og sá hafi einnig verið boðaður í viðtal. Aðrir umsækjendur hafi ekki uppfyllt mörg hæfisskilyrði, en meginþorri umsækjenda hafi verið nýlega útskrifaðir lögfræðingar.
Vegna reynslu Hallgerðar af starfinu, á meðan hún sinnti því hjá sýslumanninum í Kópavogi, hafði engin umsækjandi sambærilega reynslu af starfi gjafsóknarnefndar eða sambærilegra verkefna, eins og kveðið var á um í auglýsingu um starfið. Vegna þessa tók ráðningarferlið svo stuttan tíma, að sögn Ólafs.
Tillaga sýslumanns að færa starfið
Ólafur segir að starfið hafi verið flutt til sýslumannsins á Vesturlandi að hans tillögu. „Sýslumenn eru að því núna, að senda tillögur til ráðuneytisins, ég er búinn að senda þrjár eða fjórar tillögur,“ segir hann. Flutningur á verkefnum úr innanríkisráðuneytinu til sýslumanna um allt land er í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnarráðsins í tengslum við sameiningu sýslumannsembætta og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Ólafur hafnar því hins vegar aðspurður að nokkuð utanaðkomandi hafi haft áhrif á þá tillögu hans að flytja þetta tiltekna starf í Stykkishólm. Hann hafi einfaldlega skoðað verkefni innanríkisráðuneytisins og hvaða verkefni væri líklegt að embætti hans gæti „krækt í“. Vegna þess að starf lögfræðings á sviði gjafsóknarmála hafi lengst af verið hjá sýslumanni hafi hann talið það góðan kost. Hann hafi, eins og fram hefur komið, lagt fleiri tillögur að flutningi á störfum fyrir ráðuneytið. „Ég er ekkert hættur, ég ætla að halda áfram. Það er í innanríkisráðuneytinu núna mjög jákvæður vilji gagnvart því að færa verkefni til þessara nýju embætta, ekki bara hérna. Það er lag að gera þetta núna.“