Með stjórnarskrárbreytingu sem tók gildi 19. júní 1915 var kosningaréttur til Alþingis rýmkaður. Konur og hjú fengu kosningarétt en þó með þeim takmörkunum að aðeins þau sem náð höfðu 40 ára aldri höfðu kosningarétt. Aldursviðmið skyldu svo lækka um eitt ár á hverju ári þar til komið væri að 25 ára takmarkinu eftir 15 ár, sem þá var kosninga-aldur karla. Þegar ríkisborgararéttindi Íslendinga og Dana voru jöfnuð árið 1918 voru aldurstakmarkanir vegna kosningarréttar kvenna og hjúa felldar niður, frá og með 18. maí 1920. Það ár fengu konur því fyllsta jafnrétti á við karla í kosningum.
Í nýrri skýrslu Hagstofu Íslands, Konur og kosningar í 100 ár, er farið yfir sögu kosninga á Íslandi og litið til réttinda og þátttöku karla og kvenna. Hundrað ár eru frá því konur fengu réttindi til þess að kjósa til Alþingis. Umfjöllun þessi og tölulegar upplýsingar byggja á skýrslu Hagstofunnar.
Konur á Alþingi
Fyrstu landskjörskosningarnar eftir að konur fengu kosningarétt voru í ágúst 1916. Við kosningarnar voru 52 frambjóðendur og þar af ein kona, Bríet Bjarnhéðinsdóttir, sem skipaði 4. sæti á landslista Heimastjórnarmanna. Vegna breytinga sem kjósendur gerðu á röð listans fór hún niður í 5. sætið. Flokkurinn fékk þrjá menn kjörna, efstur á listanum var Hannes Hafstein. Hann lét af þingmennsku árið 1918, fjórði maður á lista settist á þing í hans stað og hefði það verið Bríet ef hún hefði ekki færst til í kosningunum.
Árið 1908 til 1919 sátu 40 þingmenn á Alþingi Íslendinga, 34 voru kjördæmakosnir en sex þingmenn fengu sæti með landskjörskosningum. Þingmönnum fjölgaði í 42 árið 1920, í 49 árið 1934, í 52 árið 1942, síðan í 60 árið 1959 og hafa verið 63 frá árinu 1987.
Árið 1922 hlaut Ingibjörg H. Bjarnadóttir kosningu af sérstökum kvennalista sem bauð fram í landskjörskosningum. Hún var fyrsta konan til að taka þingsæti. Í kosningunum voru 28 frambjóðendur, þar af fjórar konur. Guðrún Lárusdóttir var önnur konan sem var kjörin á þing. Hún var einnig landskjörin og sat á þingi frá 1930 til 1938 fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Næstu tuttugu árin sat ein og ein kona í senn á þingi eða engin allt til ársins 1949 þegar tvær konur voru kjörnar í fyrsta sinn. Önnur tuttugu ár liðu þar til konum fjölgaði í þrjár við kosningarnar 1971, eða 5 prósent þingmanna. Í kosningunum 1983 bauð Kvennalistinn fram og hlutfall kvenna á þingi varð 15 prósent. Konur hafa verið flestar á þingi árið 2009, þegar 27 konur fengu kosningu eða 42,9 prósent þingmanna. Í síðustu kosningum árið 2013 fækkaði konum um tvær og hlutfallið fór í 39,7 prósent.
Yfirlit um frambjóðendur í alþingiskosningum eftir kyni byggir á kosningaskýrslum og nær yfir tímabilið frá 1959 til 2013. Af kosningaskýrslum má ráða að þátttaka kvenna í framboðum fór hægt af stað. Í október 1959 voru 438 í framboði, þar af voru 36 konur eða 8,2 prósent frambjóðenda. Um tuttugu árum síðar, árið 1978, voru konur fjórðungur frambjóðenda og rúmlega þriðjungur árið 1983 þegar Kvennalistinn bauð fyrst fram. Í næstu tveimur kosningunum var hlutfallið tæp 46 prósent. Það var hæst árið 1995, eða 50, 4 prósent frambjóðenda, en eftir það hefur hlutfallið verið á bilinu 40 til 42 prósent nema árið 2007, þegar konur skipuðu 47,2 prósent frambjóðenda.
Konur og kosningaþátttaka
Þátttaka kvenna í kosningum á Íslandi var lengst af minni en karla en hefur smám saman og verið ívið meiri en þátttaka karla síðustu áratugina. Í síðustu Alþingiskosningum árið 2013 var kosningaþátttaka kvenna 81,9 prósent en karla 81,1 prósent. Um 100 árum eftir að konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis er staðan sú að konu í dag kjósa til jafns við karla, þær eru rúmlega fjórar af hverjum tíu frambjóðendum og fjórar af hverjum tíu kjörnum þingmönnum sé miðað við síðustu alþingiskosningar árið 2013.
Með rýmkun kosningaréttar fyrir hundrað árum síðar tvöfaldaðist fjöldi kjósenda á kjörskrá fyrir kosningar kjördæmiskjörinna þingmanna í október árið 1916, samanborið við kosningarnar árið 1914. Alls voru 28.529 á kjörskrá eða 31,7 prósent landsmanna, 16.330 karlar og 12.199 konur. Þátttaka kvenna í kosningunum 1916, þeim fyrstu eftir fengin kosningarétt, var þátttaka þeirra 30,2 prósent. Árið 1922 voru fyrstu kosningarnar haldnar þar sem kynin sátu við sama borð hvað kjörgengi og kosningarétt varðaði. Alls voru 43.932 kjósendur á kjörskrá eða 45,2 prósent landsmanna. Þátttaka kvenna var mun meiri en áður, eða 68,4 prósent. Þátttaka karla var 83,7 prósent.
Í kosningunum 1995 var þátttaka kvenna í fyrsta sinn meiri en karla. Hún hefur verið það síðan en munurinn hefur verið um eða undir einu prósentustigi.