Kópavogsbær segist ætla að taka ábendingar frá íbúum varðandi fjallahjólabraut við Austurkór til athugunar og upplýsa um framgang málsins eins fljótt og auðið er. Eins og Kjarninn sagði frá í vikunni fékk bærinn fjölda athugasemda frá íbúum eftir að vakin var athygli á fjallahjólabrautinni á Facebook-síðu bæjarins.
Það virtist samdóma mat flestra sem þar lögðu orð í belg að fjallahjólabrautin væri ekki tilkomumikil og að í hana vantaði allar mishæðir og annað sem nota má til þess að láta reyna á hæfni í fjallahjólreiðum.
Grautfúlir krakkar
„Malarstígur sem liggur í hring. Vei,“ skrifaði einn kaldhæðinn netverji við færslu bæjarins á Facebook. Þar hafa foreldrar einnig greint frá því að börn sín hafi verið afar svekkt með framkvæmdina, eftir að hafa beðið spennt eftir því að fá fjallahjólabraut í nærumhverfið.
Bærinn brást við holskeflu athugasemda á svipuðum nótum í gær og sagðist sem áður segir ætla að taka málið til skoðunar.
Kjarninn sendi fyrirspurn á Kópavogsbæ í vikunni og óskaði eftir öllum fyrirliggjandi upplýsingum sem sveitarfélagið hefur um framkvæmdina, en engin svör hafa borist til þessa.
Fjallahjólabrautin var á meðal þeirra verkefna sem íbúar völdu í verkefninu Okkar Kópavogur í fyrra. Samkvæmt niðurstöðum íbúalýðræðisverkefnisins stóð til að verja 8 milljónum króna í verkefnið.