Kópavogsbær og Arkitektafélag Íslands standa þessa dagana fyrir hugmyndasamkeppni, þar sem vonir standa til að fram komi hugmyndir að tengingu yfir Reykjanesbrautina í nágrenni Smáralindar, einskonar „loki“ sem þá myndi setja Reykjanesbrautina í stokk.
Bæjarstjórnin í Kópavogi ákvað á fundi sínum í maí að ráðast í þessa hugmyndasamkeppni og henni var hrundið af stað í upphafi mánaðar.
Í keppnislýsingu segir að markmiðið sé að kalla eftir hugmyndum sem styrkja svæðiskjarnann í Smára og efla tengsl á milli svæða innan hans fyrir alla ferðamáta og stuðla „sannfærandi tengingu“ milli íbúðahverfanna í Glaðheimum og Smára, til dæmis með „byggð ofan á og/eða við lok yfir Reykjanesbraut“ sem stuðli að skapandi umhverfi og ýti undir virka ferðamáta“.
Á meðal markmiðanna með keppninni er einnig að fá fram hugmyndir að staðsetningu tengistöðvar fyrir almenningssamgöngur; Borgarlínu og Strætó, auk tenginga við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík.
Sundurslitið af stofnæðum og bílastæðum
Í keppnislýsingunni segir að svæðið sem um ræðir sé eitt helsta þjónustuhverfi landsins, en að í dag einkennist það af „bílanotkun og stórum bílastæðaflákum sem gera það að verkum að það er erfitt yfirferðar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.“
Í aðalskipulagi Kópavogs sé gert ráð fyrir því að svæðið haldi áfram að þróast sem fjölbreytt miðsvæði fyrir verslun, þjónustu og íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og að í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sé gert ráð fyrir að svæðið þróist í átt að „samgöngumiðuðu þróunarsvæði“ þar sem mikil áhersla verði á „gott aðgengi að almenningssamgöngum, göngu- og hjólavænt umhverfi og blandaða byggð“ þar sem hvatt verði til notkunar vistvænna ferðamáta.
Sex milljónir í fyrstu verðlaun
Skilafrestur tillagna í þessari hugmyndasamkeppni er þann 7. febrúar næstkomandi og búist er við því að dómnefnd skili af sér niðurstöðu um miðjan marsmánuð. Verðlaunafé í keppninni eru alls 12 milljónir króna, 6 milljónir fyrir fyrsta sætið, fjórar fyrir annað sæti og tvær fyrir það þriðja.
Hrafnkell Ásólfur Proppé skipulagsfræðingur er formaður dómnefndar, en hann er fulltrúi Kópavogsbæjar í nefndinni ásamt bæjarfulltrúunum Bergljótu Kristinsdóttur og Hjördísi Ýri Johnson. Einnig sitja þeir Birkir Einarsson landslagsarkitekt og Hans-Olav Andersen arkitekt í dómnefndinni að tilefningu Arkitektafélags Íslands.