Kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar, doktors í stærðfræði, breytist nokkuð eftir að nýjasta könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 er reiknuð með. Nú er fylgi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks mjög jafnt og munurinn innan vikmarka. Björt Framtíð mældist með 25,0 prósent fylgi í kosningaspánni 14. apríl en hefur tapað tæpum þremur prósentustigum á rúmum tveimur vikum. Meirihlutinn heldur því velli með níu fulltrúa, fimm frá Samfylkingunni og fjórum frá Bjartri framtíð.
Fylgi framboða til borgarstjórnar í Reykjavík
Samkvæmt nýjustu kosnigaspá, gerðri 1. maí 2014
[visualizer id="4609"]
Engar breytingar verða á fjölda fulltrúa framboðanna í borgarstjórn samkvæmt kosningaspánni, ólíkt könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 þar sem Sjálfstæðisflokkur mældist stærstur í borginni með fimm fulltrúa. Þeir fá enn fjóra fulltrúa í kosningaspánni, eins og Björt framtíð. Samfylkingin er samkvæmt spánni stærst með fimm fulltrúa í borgarstjórn.
Röðun fulltrúa samkvæmt nýjustu spá
[visualizer id="4611"]
Breytingar verða hins vegar í sætum 16 til 20. Sjálfstæðiskonan Hildur Sverrisdóttir er næst inn í borgarstjórn á undan öðrum fulltrúa Pírata. Fimmtánda sætið vermir Skúli Helgason, fimmti maður á lista Samfylkingarinnar, en ef Sjálfstæðismenn bæta við sig fylgi er ljóst að hann dettur út.
Oddvitaleysi Framsóknarflokksins er nú leyst og færist fylgi flokksins upp um 1,8 prósentustig í nýjustu kosningaspánni. Framsókn hefur ekki átt fulltrúa í röð 20 efstu undanfarið en nú er oddvitinn Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir í 18. sæti og þriðja næst inn í borgarstjórn.
Þróun á fylgi flokka og fjölda borgarfulltrúa á flokk í Reykjavík
Kosningaspá keyrð á tímabilinu 26. febrúar til 1. maí 2014
[visualizer id="4616"]
Kosningabarátta margra framboða í Reykjavík hófst formlega milli kosningaspárinnar 14. apríl og 1. maí. Búast má við að aukin harka færist í kosningaumræðunna eftir því sem nær dregur kosningunum eftir 30 daga; laugardaginn 31. maí.
Sjá nánar á www.kosningaspa.is