Til stendur að auka fjölda þeirra rafmagnsbifreiða sem geta hlotið ívilnun frá virðisaukaskatti úr 15 þúsund upp í 20 þúsund, en lækka fjárhæðarmörk skattaafsláttsins úr 1,56 milljónum króna niður í 1,32 milljónir króna.
Kostnaður ríkissjóðs við að fjölga þeim rafbílum sem verða niðurgreiddir eins og stefnt er að verður líklega á bilinu 5,5-5,7 milljarðar króna, en þetta kemur fram í drögum að lagafrumvarpi frá Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, sem lögð voru fram í samráðsgátt stjórnvalda á laugardag.
Í frumvarpsdrögunum segir að ekki fáist annað séð en að „forsendur séu að skapast fyrir sjálfbærum hraða orkuskiptanna“ og því sé komið að þeim tímapunkti að stjórnvöld dragi úr stuðningi sínum með því að lækka fjárhæðarmörk ívilnunarinnar fyrir rafmagnsbíla.
Hærri ívilnun í gildi út árið 2022
Samkvæmt því sem fram kemur í drögunum er gert ráð fyrir að 15.000 bifreiða markinu verði náð á síðari hluta þessa árs. Ákveðið hefur verið að fara þá leið að í stað þess að bíll númer 15.001 verði með lægri ívilnun muni núverandi ívilnun verða í gildi 31. desember 2022. Það verður því ekki fyrr en um næstu áramót sem ívilnunin lækkar, óháð því hvernig gangur verður í rafbílasölunni.
„Að mæla fyrir um ákveðna lokadagsetningu stuðlar að meiri skýrleika og fyrirsjáanleika fyrir alla hlutaðeigandi aðila. Af þeim sökum er lagt til að gildandi fjárhæðarmörk gildi til og með 31. desember 2022. Miðað við áætlanir má gera ráð
fyrir að þær rafmagnsbifreiðar sem komi til með að njóta ívilnunar samkvæmt gildandi fjárhæðarmörkum verði þannig fleiri en 15.000 talsins,“ segir um þetta atriði í greinargerð með frumvarpsdrögunum.
Einungis 26 prósent hafi farið yfir 1,32 milljóna endurgreiðslu
Í frumvarpsdrögunum segir að af þeim rafmagnsbílum sem fengu undanþágu frá virðisaukaskatti í fyrra hafi flestir verið á verðbilinu 4,5-5,5 milljónir króna og að af 4.501 rafmagnsbifreiðum hafi þurft að greiða einhvern virðisaukaskatt af 527 bílum. Virðisaukaskattur hefur verið niðurgreiddur að fullu af bifreiðum sem kosta upp að 6,5 milljónum króna án virðisaukaskatts.
Í 74 prósentum tilvika nam full niðurfelling virðisaukaskatts við innflutning rafmagnsbifreiða svo lægri fjárhæð en 1,32 milljónum króna. Samkvæmt frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir því að það verði áfram svo að mikill meirihluti rafbílakaupenda fái áfram virðisaukaskattinn felldan niður að fullu, eins og verið hefur, og að í tilfelli dýrari bílana muni kaupendur að jafnaði þurfa að greiða um 5 prósent virðisaukaskatt að jafnaði.
Stefnt að því að slaufa ívilnunum í árslok 2023
Í frumvarpsdrögunum segir að nauðsynlegt sé að halda áfram „stuðningi við rafmagnsbifreiðar í einhvern tíma í þeim tilgangi að styðja við markmið stjórnvalda varðandi orkuskipti í bifreiðaflotanum og til að viðhalda þeim góða árangri í nýskráningu rafmagnsbifreiða sem náðst hefur á síðustu misserum“.
Gildistími niðurgreiðsluákvæðisins hvað rafmagnsbifreiðar varðar er hins vegar hafður óbreyttur, sem þýðir að ívilnunin mun falla á brott annað hvort þegar 20 þúsund bíla markinu er náð eða í árslok 2023, ef sá fjöldi bifreiða mun ekki hafa náðst.
Bílar komnir á markað sem geti verið kostir á landsbyggðinni
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir að þróun í hönnun og framleiðslu rafbíla sé hröð og að komar séu „á markað bifreiðar sem nýtast til lengri aksturs og geta því verið ákjósanlegur kostur fyrir íbúa landsbyggðarinnar.“ Því er bætt við að bæði drægni þeirra og úrval hafi aukist til muna, auk þess sem verðið hafi farið lækkandi.
„Samkeppnishæfni rafmagnsbifreiða gagnvart bifreiðum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti hefur því aukist til muna sem endurspeglast í auknum áhuga almennings á þeim líkt og tölur um fjölda rafmagnsbifreiða sem hlutfall af nýskráðum bifreiðum bera með sér,“ en það hlutfall náði yfir 30 prósent árið 2021. Hlutfallið af nýskráðum bifreiðum á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs var svo 39 prósent af öllum seldum bifreiðum.
Rafmagnsbifreiðar eru þó enn sem komið er einungis um 4,8 prósent af öllum skráðum bifreiðum í umferð.