Rekstrarkostnaður Icelandair á milli júlímánaða 2020 og 2021 var 27 prósent umfram spár félagsins í fjárfestatilkynningu sinni samhliða hlutafjárútboðinu sínu í fyrrahaust. Þrátt fyrir að rekstrartekjur félagsins á nýliðnum ársfjórðungi hafi aukist töluvert þurfa þær að hækka um fimmtung á síðustu mánuðum þessa árs til að standast eigin spár.
Þurfa enn meiri tekjuvöxt
Samkvæmt nýbirtu árshlutauppgjöri Icelandair námu rekstrartekjur félagsins alls 258 milljónum Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi, eða um 33 milljörðum íslenskra króna. Þetta eru langmestu tekjurnar sem flugfélagið hefur fengið af starfsemi sinni frá árinu 2019, en þær eru rúmlega tvöfalt meiri en tekjurnar á sama tímabili í fyrra og rúmlega þrefalt meiri en þær voru á öðrum fjórðungi þessa árs.
Þó þurfa tekjurnar að vaxa enn meira til að flugfélagið standist spárnar sem það setti fram samhliða hlutafjárútboðinu sínu í fyrra. Samkvæmt þeim var búist við að heildartekjur vegna rekstrar samstæðunnar Icelandair Group myndu ná 637 milljónum dala í ár, eða um 82 milljörðum í ár, en til þess að það markmið náist þurfa rekstrartekjur hennar að aukast um 20%. Tekjuþróunina eftir ársfjórðungum má sjá á mynd hér að neðan.
Skuldar 3,5 milljarða í frestaðar tekjuskattgreiðslur
Í fjárfestakynningu sinni í fyrra kynnti Icelandair einnig spár um rekstrarkostnað félagsins á milli júlímánaða 2020 og 2021. Líkt og myndin hér að neðan sýnir var kostnaðurinn hins vegar umfram spár í hverjum ársfjórðungi, en hann var alls vanmetinn um 27 prósent á tímabilinu.
Á nýliðnum ársfjórðungi jókst rekstrarkostnaður félagsins svo töluvert, eða úr 114 milljónum Bandaríkjadala í 217 milljónir dala. Búist er við að kostnaðurinn aukist nokkuð á næsta ári, en líkt og Icelandair greinir frá í uppgjörinu sínu mun félagið byrja að greiða upp frestaðan tekjuskatt starfsmanna sinna í byrjun næsta árs. Alls skuldar félagið 26,8 milljónir Bandaríkjadala, eða um 4,5 milljarða króna, ríkissjóð fyrir frestaðar tekjuskattsgreiðslur.
Lausafjárstaða betri en á horfðist
Þrátt fyrir að áætlaður rekstrarkostnaður félagsins hafi verið vanmetinn og að mikið þurfi til svo að spár um rekstrartekjur haldist hefur lausafjárstaða Icelandair batnað töluvert. Ef ríkisábyrgð á lánum félagsins er talin með nemur lausafjárstaðan nú 454 milljónum Bandaríkjadala, eða um 58,7 milljörðum króna.
Staðan hefur batnað um 123 milljónir dala frá síðasta ársfjórðungsuppgjöri. Samkvæmt áætlunum Icelandair var búist við að eiginfjárstaðan, að ríkisábyrgðinni meðtalinni, myndi einungis nema 217 milljónum Bandaríkjadala, eða um 28 milljörðum króna.