Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna skimana gagnvart COVID-19 frá febrúar 2020 og til ársloka 2021 nam rúmum 9,2 milljörðum króna, samkvæmt svörum heilbrigðisstofnana landsins, sem sagt er frá í svari heilbrigðisráðherra við skriflegri fyrirspurn Bergþórs Ólasonar þingmanns Miðflokksins.
Ekki er ljóst hvort þessi kostnaður er alveg tæmandi, þar sem heilbrigðisráðuneytinu bárust ekki svör frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands né Heilbrigðisstofnun Suðurlands með kostnaðartölum um skimanir á vegum þessara stofnana.
Yfir tveir milljarðar bara í desember 2021
Ekki þarf að koma á óvart að kostnaður heilbrigðisstofnana vegna skimana fyrir kórónuveirunni fór eftir því sem leið á árið 2021 vaxandi og var mestur í desembermánuði síðastliðnum.
Þá fóru 794 milljónir króna í PCR-próf, hraðpróf voru framkvæmd fyrir 617 milljónir króna, auk þess sem 650 milljónir króna fóru í landamæraskimanir. Við þetta bætast svo 43 milljónir sem fóru í sóttkvíarskimanir og 25 milljónir króna sem fóru í skimanir vegna ferðamannavottorða. Alls eru þetta rúmir 2,1 milljarðar króna sem fóru í að skima með einhverjum hætti fyrir veirunni einungis í desembermánuði.
PCR-prófin vógu þyngst
Heildarútgjöld vegna PCR-prófa árin 2020 og 2021 voru alls 7,27 milljarðar króna, samkvæmt því sem fram kemur í svari ráðuneytisins. Á móti þeirri upphæð koma þó sértekjur sem alls námu rúmum 1,9 milljörðum króna á sama tímabili og var heildarkostnaður við PCR-prófin því 5,36 milljarðar króna. PCR-prófin kostuðu mest 812 milljónir króna í einum mánuði í ágúst í fyrra.
Heildarkostnaður við hraðpróf nam rúmum milljarði og tæpir 2,3 milljarðar voru lagðir út vegna landamæraskimana, á árunum 2020 og 2021. Þá fóru 330 milljónir króna í skimanir vegna ferðamannavottorða, samkvæmt samantektinni frá heilbrigðisráðuneytinu.