Verktakafyrirtækið ÍAV hefur lagt fram kyrrsetningarkröfu til sýslumanns vegna deilunnar sem staðið hefur yfir um stendur um riftun verksamnings sem fyrirtækið var með um byggingu íbúðar- og skrifstofuhúsnæðis á uppbyggingarreit á Kirkjusandi.
ÍAV fer fram á kyrrsetningu eigna fjárfestingarsjóðsins 105 Miðborg slhf., sem er í stýringu Íslandssjóða, dótturfélags Íslandsbanka, en fjallað er um þetta í útboðslýsingu vegna hlutafjárútboðs Íslandsbanka..
Verktakafyrirtækið stefndi 105 Miðborg og Íslandssjóðum til greiðslu tæplega 3,9 milljarða króna snemma í maímánuði. 105 Miðborg lagði fram gagnstefnu í síðustu viku og fer fram á sömu upphæð úr hendi ÍAV. Einnig hefur félagið óskað eftir því við héraðsdóm að þau atriði í byggingununum sem ÍAV byggði og þarf að laga verði metin. Íslandssjóðir hafa komið því á framfæri að félagi telji sig ekki eiga að vera aðilar deilunnar fyrir dómstólum, enda snúist hún um verksamning á milli verktakafyrirtækisins og fjárfestingarsjóðsins.
Í frétt Morgunblaðsins í dag segir að kyrrsetningarkrafan frá ÍAV snúist um að tryggja að einhverjar eignir verði eftir félaginu í 105 Miðborg til þess að standa straum af mögulegum skaðabótagreiðslum þegar niðurstaðan í dómsmálinu liggur fyrir og sömuleiðis að fallist hafi verið á að taka kyrrsetningarbeiðnina fyrir.
105 Miðborg telur kröfu ÍAV illa ígrundaða
Í tölvupósti sem 105 Miðborg sendi á íbúa í nýbyggingunum á Kirkjusandi vegna þessara mála fyrir skemmstu kemur fram að sjóðurinn telji kyrrsetningarkröfu ÍAV bæði tilefnislausa og illa ígrundaða.
Einnig segir þar að ef krafan verði samþykkt komi það til með að hafa áhrif á getu félagsins til þess að halda áfram með lagfæringar á íbúðum sem nú standa yfir og aðrar lagfæringar sem eru fyrirliggjandi.
105 Miðborg rifti verksamningi við ÍAV þann 19. febrúar á þessu ári og réði aðra verktaka inn í staðinn. Ástæður fyrir riftuninni voru sagðar tafir á framkvæmdum og gallar í húsunum sem þá voru risin, sem ÍAV hefði neitað að laga nema gegn frekari greiðslu.
Þegar samningum var rift var búið að byggja tvö fjölbýlishús og steypa upp eitt skrifstofuhúsnæði.
Í kjölfarið á því að riftun verksamningins rataði í fréttir í upphafi marsmánaðar sendi ÍAV frá sér yfirlýsingu, þar sem fyrirtækið sagðist ekki hafa fengið greitt vegna vinnu við verkið frá því í lok nóvember 2020 og því boðað stöðvun þess í janúarmánuði.
ÍAV sagði að þær ástæður sem nefndar hefðu verið fyrir riftuninni væru að mati fyrirtækisins fjarri því að vera lögmætar og að tjón ÍAV vegna aðgerða 105 Miðborgar og Íslandssjóða væri verulegt, bæði vegna verkkostnaðar sem ekki hefði fengist greiddur og orðsporsmissis.
Í yfirlýsingunni sagði sömuleiðis að ÍAV stæði í þeim skilningi að 105 Miðborg sem verkkaupi ætti að greiða fyrir hluta verksins sem voru utan samnings um byggingu húsanna þriggja á Kirkjusandi, en einnig að taka ætti tillit til utanaðkomandi þátta, einkum kórónuveirufaraldursins, við ákvörðun verktíma og viðbótarkostnaðar.