Í síðasta þætti af Ferð til fjár fylgdumst við með Hauki Frey Gylfasyni, viðskiptafræðingi og sálfræðingi, framkvæma hina svokölluðu sykurpúðatilraun. Haukur Freyr, sem er aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík og hefur sérhæft sig í atferlisrannsóknum tengdum fjármálahegðun, fékk til liðs við sig nokkur börn á leikskólaaldri, og kannaði hversu auðvelt þau eiga með að seinka umbun.
Sykurpúðatilraunin á rætur að rekja til 6. og 7. áratugar síðustu aldar. Sálfræðingurinn Walter Mischel, sem þá var prófessor við Stanford háskóla í Bandaríkjunum, rannsakaði hversu auðvelt börn eiga með að seinka umbun og standast freistingar. Rétt eins og Haukur Freyr sagði börnunum, þá er þeim boðið að borða sælgætismola strax eða bíða með molann fyrir framan sig í tíu mínútur og fá þá annað nammi að auki í umbun.
Niðurstaða sykurpúðatilraunar Mischel var sú að þau börn sem gátu beðið lengur eftir umbun í formi sælgætis fengu hærri einkunnir í samræmdum landsprófum (SAT) síðar á lífsleiðinni og voru auk þess í betra líkamlegu formi og náðu almennt betri árangri samkvæmt ýmsum lífs-mælikvörðum.
Stóðust freistinguna
Það var forvitnilegt og svolítið fyndið að fylgjast með krökkunum glíma við freistinguna í fyrsta þætti Ferðar til fjár. Rétt eins og í tilraun Mischel á síðustu öld, þá var verkefni börnunum ekki auðvelt. Í tilraun hans snéru sum börn sér undan eða huldu andlit sitt. Önnur börn, þó fæst af þeim rúmlega 600 börnum sem tóku þátt í upphaflegu tilrauninni, borðuðu nammið um leið og rannsakandinn yfirgaf herbergið.
Krakkarnir í Ferð til fjár stóðust öll freistinguna með glæsibrag. Það krafðist þó nokkurar sjálfstjórnar, eins og þessi skjáskot bera með sér.
Það getur verið erfitt að bíða, sérstaklega með sælgæti fyrir framan sig.
Þennan grunaði að það væri einhver maðkur í mysunni. "Þegar ég á afmæli ætla ég að horfa á mig ekki borða nammið."
Þetta er annars allt bara eitt stórt leikrit, er það ekki?
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Fyrsti þátturinn er á dagskrá fimmtudaginn 15. janúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferð til fjár.