Allir stjórnarandstöðuflokkar á Alþingi hafa krafist þess að þing komi saman vegna nýrra vendinga í tengslum við söluna Íslandsbanka. Rétt í þessu fór bréf þess efnis á forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur og forseta Alþingis Birgi Ármannsson.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarandstöðuflokkunum.
Ríkisstjórnin sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem fram kemur að hún hafi ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og innleitt verði nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Vilja umræðu um framkvæmd stjórnvalda á sölunni
Í tilkynningu stjórnarandstöðunnar segir að nú liggi fyrir að ríkisstjórnin hyggist bregðast við þungri gagnrýni á fyrirkomulag stjórnvalda á sölu fjórðungseignarhluta ríkisins í Íslandsbanka með því að leggja Bankasýsluna niður.
„Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekki svarað fyrirspurnum fjölmiðla í viku og fundaði ekki á hefðbundnum fundartíma ríkisstjórnar í dag. Samkvæmt dagskrá Alþingis á það ekki að koma saman fyrr en hinn 25. apríl nk. Það er ótækt að mál sem varða grundvallarhagsmuni þjóðarinnar séu til lykta leidd með fréttatilkynningum ríkisstjórnarinnar.
Af þeirri ástæðu beinir stjórnarandstaðan þeirri eindregnu kröfu til forsætisráðherra að þing komi saman án tafar. Er það gert með vísan til 3. mgr. 77. gr. þingskaparlaga nr. 55/1991 þar sem segir að forseta Alþingis sé skylt að boða til fundar setji forsætisráðherra fram ósk um það. Er því óskað atbeina forsætisráðherra við það að þing komi saman. Þar fari fram umræða um framkvæmd stjórnvalda á sölunni,“ segir í bréfinu.
Undir bréfið skrifa þingflokksformenn Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins, Viðreisnar og Miðflokksins, þau Helga Vala Helgadóttir, Halldóra Mogensen, Guðmundur Ingi Kristinsson, Hanna Katrín Friðriksson og Bergþór Ólason.
Uppfært: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur gefið það út að hún telji ekki ástæðu til að kalla saman þing. Næsti þingfundur verður því mánudaginn næstkomandi, 25. apríl.