Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi, mun ekki fara fram í þingkosningunum í haust. Hann hefur verið virkur í stjórnmálum í á fjórða áratug, fyrst sveitarstjórnarmálum og síðar í landsmálum. Hann er sem stendur fyrsti þingmaður síns kjördæmis. Frá þessari ákvörðun greinir Kristján Þór í viðtali við Morgunblaðið í dag en viðmælendur Kjarnans innan Sjálfstæðisflokksins hafa síðustu mánuði gengið út frá því að þetta yrði niðurstaða Kristjáns Þórs. Hann er eini sitjandi ráðherrann sem mun ekki verða í framboði 25. september næstkomandi, þegar kosið verður nýtt Alþingi.
Í nýlegri könnun sem Maskína gerði fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar kom fram að Kristján Þór er langóvinsælasti ráðherra landsins. Alls sögðust 64 prósent aðspurðra verða óánægðir með störf hans en sá sem kom næstur á eftir honum hvað ónægju varðar, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokks, mældist með 43 prósent óánægju. Einungis níu prósent landsmanna sögðust vera ánægðir með störf Kristjáns Þórs. Það er tæplega einni þriðji af þeirri ánægju sem mældist hjá þeim ráðherra sem næst minnst ánægja mældist með, en 28 prósent sögðust vera ánægð með störf Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfisráðherra og varaformanns Vinstri grænna.
Kristján Þór hefur verið mikið í eldlínunni á kjörtímabilinu, meðal annars vegna náina tengsla sinna við sjávarútvegsfyrirtækið Samherja, sem er til rannsóknar hérlendis, í Namibíu og Noregi vegna gruns um að það hafi framið skattalagabrot, peningaþvætti og greitt mútur fyrir aðgang að kvóta.
Þegar Kristján Þór kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna þeirra tengsla í janúar 2020, nokkrum mánuðum eftir að Samherjamálið kom upp, sagði hann að það væri erfitt að greina á milli þess hvenær maður væri að tala við vin og hvenær maður væri að tala við forsvarsmann fyrirtækis. Þetta væri einn og sami maðurinn. Þessi orð lét hann falla þegar ráðherrann var spurður út í símtal sem hann átti við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra og einn aðaleiganda Samherja, þegar málefni Samherja komust í hámæli í fyrrahaust. Það símtal, þar sem Kristján Þór spurði Þorstein Má meðal annars hvernig hann hefði það, hefur verið harðlega gagnrýnt af mörgum, meðal annars af þingmönnum stjórnarandstöðunnar.
Hann segist ekkert hafa að fela varðandi tengsl sín við Samherja og segir að það þýði ekki að velta sér upp úr gagnrýninni á þau. „Ég gekk fram í því, þegar ég varð ráðherra þessara málaflokka, að draga fram upplýsingar og tengsl mín við Samherja. Ég vildi gera algjörlega hreint fyrir mínum dyrum af því ég hef ekkert að fela um það. En ég stjórna ekki umræðunni og þeir sem það kjósa geta málað upp einhverja mynd af andstæðingi sínum sem þeir vilja að fólk trúi. Við því er fátt að gera nema benda á staðreyndir málsins.“