„Ég hef tekið ákvörðun. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér og bjóða mig fram til formanns í Samfylkingunni, jafnaðarmannaflokki Íslands.“ Þetta sagði Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á opnum fundi í Iðnó sem hún boðaði til og hófst klukkan 16 í dag.
Í ræðu sinni sagðist hún ætla að leggja áherslu á kjarnamálin í jafnaðarmannastefnunni. Þau séu húsnæðismál, heilbrigðismál, samgöngur, góð atvinna og kjör fólks.
Það sé lykillinn að breiðari og stærri flokki og trúverðugleika. „Við eigum enga annarra kost á völ að mínu mati, því vandinn sem við stöndum frammi fyrir er þessi: Kannanir hafa sýnt að kjósendur eiga erfitt með að festa hönd á það fyrir hvað Samfylkingin stendur. Ég vil að það sé alveg á hreinu fyrir hvað flokkurinn stendur og af hverju hann á erindi við fólkið í landinu.“
Það muni þurfa sjálfstraust og aga til að einbeita sér að kjarnamálum, frekar en að týnast í fínni blæbrigðum þjóðmálaumræðunnar. „Þetta verður að birtast í okkar verklagi. Og þetta þarf að birtast í því hvernig við tölum við fólk, hvernig tengjumst ósköp venjulegu fólki. Trúverðugleiki okkar byggir nefnilega á því að fólk tengi við okkur. Og ég ætla að leyfa mér að segja það eins og ég sé það: Samfylkingin þarf að ná virkari tengingu við venjulegt fólk á Íslandi, hinn almenna launamann. Og það verður ekki gert öðrum hætti en maður á mann. Það er hægt að vera vel lesinn, í reglulegu sambandi við sérfræðinga, flytja öflugar ræður á þingi og skrifa fjöldann allan af greinum í blöðin. En eina leiðin til að kynnast fólkinu í landinu, sækja stuðninginn og innblástur fyrir þingstarfið, sem fyrir jafnaðarmann á þingi er starf í þágu fólksins, er forðast það að einangra sig og mæta einfaldlega fólki. Nákvæmlega þar sem það er, taka því eins og það er, og hlusta.“
Meiri samkennd, minni einstaklingshyggja
Kristrún sagði að hún gæti ekki ímyndað sér meiri heiður en að leiða flokka jafnaðarmanna, og að hún gerði sér fulla grein fyrir þeirri ábyrgð sem því fylgir.
Kristrún vill gera Samfylkinguna að afli í stjórnmálum sem veiti efnahagsmálum trúverðuga forystu. Þannig sé hægt að bjóða fram trúverðugan valkost við efnahagspólitík ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem bitnað hafi á velferðarþjónustu í landinu.
Jafnaðarmenn þurfi að stunda jákvæða pólitík
Kristrún sagði að jafnaðarmenn eigi að stunda jákvæða pólitík og tala fyrir lausnum á áskorunum sem þeir standi frammi fyrir. „Það er spilað mikið inn á pólitík óhjákvæmileika þessa dagana hér á landi. Af orðræðu ráðamanna mætti halda að sé einfaldlega ekki hægt að gera betur í húsnæðismálum, heilbrigðismálum, samgöngum, gagnvart fólki sem reiðir sig á almannatryggingar. En fólkið í landinu veit að það er hægt að leysa þessi mál, og fólk treystir sér til þess, þetta heyri ég í samtölum um allt land. Það er skortur á jákvæðri pólitík og fólki í pólitík sem er með jákvæðari hugmyndir um framtíðina – að fólk upplifi að þetta sé í okkar höndum. Þessa umræðu, þessa jákvæðu pólitík eigum við jafnaðarmenn auðvitað að leiða.“
Því þurfi að sameinast um fullfjármagnað heilbrigðiskerfi, að ríkið taki ábyrgð á húsnæðismarkaðnum, sameinast um að fólk á lágum tekjum og ungt fólk beri ekki hitann og þungann af verðbólgunni, sameinast um að styrkja almannaþjónustuna og grunninnviði samfélagsins um land allt og sameinast um að verðmætasköpun byggi á framlagi margra þátta.
Þyngsli, neikvæðni og úrræðaleysi í núverandi stjórnarfari
Undir lok ræðu sinnar sendi Kristrún út ákall til jafnaðarmanna í landinu og hvatti þá til að koma með í það verkefni sem væri framundan. „Því jafnaðarmenn þurfa að komast til áhrifa við stjórn landsins. Það kemur ekkert annað til greina“
Hún sagði að endurvekja þyrfti von og trú fólks á að það sé hægt að breyta og reka samfélagið betur, þannig að það virki sem best fyrir sem flesta. Núverandi stjórnarfar, sem hafi einkennt landið í áratug, beri í auknum mæli með sér þyngsli og neikvæðni og úrræðaleysi. „Forystumenn ríkisstjórnarinnar telja fólki ítrekað trú um að það sé ekki hægt að gera hlutina öðruvísi. Það stendur ekki á fólkinu sem hér býr að leysa stór samfélagsleg verkefni, heldur á stjórnmálamönnum að trúa á samtakamátt fólks. Það er einfaldlega þannig að stærstu áskoranir okkar tíma verða aðeins leystar með samstöðu fólksins í landinu og þar þarf ríkisstjórn að veita forystu. Ala á ábyrgð gagnvart samborgurunum.“
„Þurfum að draga línu í sandinn“
Kristrún sagði að það væri gífurlega jákvætt að verða vitni að efnislegri velgengni margra hér á landi. En að sama skapi væri mikilvægt að gleyma því ekki að það væri samfélagið hér í heild sem hafi staðið við bakið á fólki sem skarar fram úr. „Það fer enginn neitt einn. Sama á við um fyrirtæki sem skara fram úr í íslensku samfélagi. Að baki þeirra liggur fjöldinn allur af fólki sem hefur unnið að samfélagsgerð sem styrkir forsendur umræddra fyrirtækja til að sækja fram. Það eiga ekki allir að vera eins, og útkoma fólks getur verið misjöfn. En ábyrgðin á góðu samfélagi er allra. Breiðu bökin þurfa að finna til ábyrgðar og vera stolt af framlagi sínu til samfélagsins. Við þurfum að draga línu í sandinn um hvað við munum ekki líða og leggja af mörkum til sameiginlegra sjóða til að tryggja fólki gott líf, þora að beita ríkinu í þágu fólksins.“