Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur og þingframbjóðandi Samfylkingarinnar, segir það vera óásættanlegt að ríkisstjórnin skeri niður í opinberri þjónustu eða hækki skatta innan tveggja ára, þegar búist er við 6-7 prósenta atvinnuleysi á þeim tíma. Samkvæmt henni er aukin verðmætasköpun forsenda þess að hægt sé að lækka skuldahlutfall ríkisins.
Í færslu á Facebook-síðu sinni í gær fjallaði Kristrún um nýbirtu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir tímabilið 2022-2026. Þar stefnir ríkisstjórnin á að draga úr hallarekstri í opinberum fjárlögum á næstu árum og stöðva skuldasöfnun árið 2025.
Allt að 50 milljarða króna aðhaldsaðgerðir
Kjarninn hefur áður fjallað um áætlunina, en samkvæmt henni mun hið opinbera ráðast í svokallaðar „afkomubætandi ráðstafanir“, sem fela annað hvort í sér skattahækkanir eða niðurskurð á gjöldum ríkissjóðs, á tímabilinu 2023-2025. Ráðist yrði í þessar ráðstafanir til að halda skuldahlutfallinu innan ákveðinna marka.
Búist er við að niðurskurður eða skattahækkanir muni nema um 34 milljörðum króna á hverju ári í grunnsviðsmynd ríkisstjórnarinnar, en þær gætu farið upp í allt að 50 milljarða króna á ári ef efnahagsástandið verður verra en áður var spáð.
Aukin verðmæti forsenda lægri skulda
Samkvæmt Kristrúnu er hins vegar ekki hægt fyrir hið opinbera að skera sig niður í lægra skuldahlutfall, sú tilraun hafi verið reynd á meðal annarra Evrópuríkja og mistekist.
„Forsenda þess að skuldahlutföll falli er að tekjurnar sem undir þeim standa geti vaxið,“ segir Kristrún í Facebook-færslunni sinni. „Fjöldaatvinnuleysi er sóun og hagkerfi þar sem atvinnuleysi er viðvarandi nýtir ekki auðlindir sínar sem skyldi. Það er fólkið í landinu sem skapar verðmætin,“ bætir hún við.
Börnin erfi meira en skuldir
Kristrún gagnrýnir einnig ummæli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að núverandi vanda verði ekki velt yfir á framtíðarkynslóðir: „Þetta er dogmatísk orðræða sem gengur út frá að það eina sem börn erfi séu fjárhagslegar skuldir. Þessi börn erfa líka samfélagsgerðina sem út úr þessu ástandi kemur,“ stendur í færslunni og minnist Kristrún í því samhengi á niðurstöðum rannsókna sem sýna að langtímaatvinnuleysi hafi áhrif á lífstekjur einstaklinga og barna þeirra.